„Almennt talað þá hefur það verið þannig að þegar kemur að breytingum sem gerðir eru á einstökum kjarasviðum á borð við starfsmati eða virðistmati, þá hefur mér ekki verið kunnugt um það hingað til að það hafi áhrif á kjarastefnu í almennum kjarasamningum,“ segir Ástráður Haraldsson, ríkissáttasemjari í tengslum við umræðu sem sprottið hefur upp í tengslum við nýgerðan kjarasamning kennara.
Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar tjáðu sig t.a.m. bæði um það í gær að þau myndu rýna í nýju kennarasamningana með launafólk í þeirra verkalýðsfélögum í huga.
Spurður segir Ástráður að hann hafi átt í ýmsum einkasamtölum við fólk í tengslum við kjarasamningana. Hins vegar sé um trúnaðarsamtöl að ræða og tjáir sig ekki hvort hann hafi rætt við aðra verkalýðsleiðtoga um gerð kennarasamninganna.
Haft hefur verið á orði að kjarahækkanir kennara séu hærri en á almennum vinnumarkaði eða því sem nemur um 24% samanborið við um 14-17% hækkun yfir línuna á vinnumarkaði hingað til.
„Það eru fjölmörg dæmi um að hópar hafi verið teknir í starfsmat hjá sveitarfélögum. Síðasta dæmið eru sjúkraliðar. Slíka ferla hafa sveitarfélögin verið að taka upp fyrir sítt starfsfólk. Að vísu er um nýja aðferðarfræði að ræða í tilfelli kennara, aðferðarfræði sem verið er að þróa,“ segir Ástráður.
Hann segir að þær breytingar sem gerðar hafa verið eftir slíka vinnu hafi hingað til verið tekin út fyrir sviga þegar kemur að almenna markaðnum og hækkunum þar.
„Ég held því að slík umræða (um kjör á almennum vinnumarkaði í samhengi við kjör kennara) sé á villigötum,“ segir Ástráður.
Hann segir ekki óeðlilegt að verkalýðsleiðtogar séu á varðbergi og að ekki sé nýtt að menn séu tilfinninganæmir í umræðum um kjaramál.
„En þá gildir eins og jafnan, að anda í kviðinn, slaka á og hugsa málið,“ segir Ástráður.