Á þriðjudagskvöld náðust loksins samningar á milli kennara, ríkis og sveitarfélaga og var í kjölfarið öllum verkföllum aflýst. Náðust samningarnir eftir að breytingar voru gerðar á forsenduákvæði sem styr hafði staðið um.
Eins og komið hefur fram í fréttum fá kennarar strax 8% hækkun og gildir samningurinn frá 1. júní á síðasta ári til loka mars árið 2028, eða í fjögur ár. Oft hefur verið bent á að ríkið samþykki afturvirkni samninga langt aftur í tímann, en hvernig er það í þessu tilfelli?
Í nóvember, þegar verkföllum kennara var frestað fram í janúar með fyrri innanhústillögu sáttasemjara, var samið um að kennarar fengju eingreiðslu upp á 3,95% launahækkun frá 1. júní þegar samningar voru lausir.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, staðfestir í samtali við mbl.is að hækkunin sem nú var samþykkt upp á 8% nái frá 1. febrúar og því komi ekki til eingreiðslu upp á frekari afturvirkni en fyrir þann mánuð en þegar hafði verið gengið frá með innanhústillögunni í nóvember.