Keizo Takewaka, nýr sendiherra Japans á Íslandi, bauð til samsætis síðastliðinn föstudag í tilefni af 65 ára afmæli Naruhito Japanskeisara. Hann varð sendiherra um áramótin en hann afhenti Höllu Tómasdóttur forseta trúnaðarbréf sitt 8. janúar.
Sendiherrann rifjaði upp í ræðu sinni að Ísland og Japan hefðu tekið upp stjórnmálasamband 1956. Ríkin ættu það sameiginlegt að hafa mörg eldfjöll og öflugan sjávarútveg.
„Við dáumst að Íslendingum fyrir að vera í fremstu röð á mörgum sviðum,“ sagði hann og nefndi jafnrétti kynjanna, jarðhita og hið vel sótta Hringborð norðurslóða.
Þá vitnaði sendiherrann í ræðu japanska utanríkisráðherrans Takeshi Iwaya á öryggisráðstefnunni í München á dögunum. Við það tilefni hafi ráðherrann áréttað að öryggismál í Evrópu og á Atlantshafinu annars vegar og á Kyrrahafssvæðinu hins vegar væru nátengd og að ekki yrði greint þar á milli. „Við stöndum af einhug saman,“ sagði sendiherrann.
Hann lýsti einnig yfir ánægju með þátttöku Íslands á heimssýningunni í Osaka sem hefst 13. apríl og hvatti Íslendinga til að kynna sér kosti þess að fjárfesta í Japan, sem væri stór markaður með mikil tækifæri.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, tók næstur til máls en þess má geta að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð þáverandi fjármálaráðherra ávarpaði samkomuna í fyrra og lagði þá út frá hinni breyttu heimsmynd.
Ólafur Ragnar sagði sérstakan heiður að fá að ávarpa samkomuna.
„Ég vil einnig nota tækifærið til að bjóða minn gamla vin, sendiherrann, velkominn til Íslands. Hann var sendiherra norðurslóðamála í Japan og tók á þeim vettvangi ekki aðeins virkan þátt í málstofum Hringborðs norðurslóða hér á Íslandi heldur átti einnig afar mikilvægan þátt í hinum mikla árangri sem náðist á hringborðinu í Japan fyrir nokkrum árum, sem vitnaði um vaxandi þátttöku Asíuríkja í norðurslóðamálum.
Það er okkur Íslendingum dýrmætt, ekki síst nú þegar norðurslóðir eru að færast á mitt skákborð heimsmálanna, að hafa svo reyndan diplómata í norðurslóðamálum sem fulltrúa Japans í okkar landi. Það er á margan hátt merkilegt hvernig Japan hefur sýnt virkan áhuga á norðurslóðum. Ég er ekki viss um að allir sem hér eru samankomnir átti sig á hversu mikilvægu hlutverki tveir af síðustu utanríkisráðherrum Japans hafa gegnt í norðurslóðamálum,“ sagði Ólafur Ragnar.
Þá væri athyglisvert að fjölskylda Japanskeisara hefði vakið athygli á þessum einstaka heimshluta.
„Það er mér sérstaklega minnisstætt fyrstu vikurnar eftir að ég varð forseti 1996 að Takamado prins og Takamado prinsessa komu til Íslands á leið sinni til Grænlands, enda vildu þau sjá með eigin augum þetta merkilega og stóra land jökla og ísa, sem þá, fyrir nær 30 árum, var af flestum, jafnvel í Evrópu, talið vera svo langt í burtu að varla nokkur forystumaður í stjórnmálum eða viðskiptum, hvað þá konungsfjölskyldur eða keisarafjölskyldur, legðu leið sína þangað,“ sagði Ólafur Ragnar.
Það hefði einmitt verið við þetta tilefni sem hann fór að íhuga hið mikla mikilvægi Grænlands, okkar næsta nágranna, á norðurslóðum. Nú hefðu norðurslóðir og Grænland öðlast nýjan sess á skákborði heimsmálanna.