Jakob Tryggvason hefur verið kjörinn formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Hlaut hann standandi lófaklapp þegar Georg Páll Skúlason, forseti þingsins, las upp úrslitin fyrr í dag.
Kristján Þórður Snæbjarnarson tók sæti á Alþingi á dögunum og hefur því látið af störfum sem formaður sambandsins, eftir 14 ára starf.
Jakob hlaut 72,9% atkvæða á aukaþingi RSÍ, sem fór fram í Gullhömrum í Grafarholti í dag.
Ágúst Hilmarsson hafði einnig gefið kost á sér til formanns sambandsins en hann hlaut 25,4% atkvæða.
Þá hafði Margrét Halldóra Arnarsdóttir gefið kost á sér en dregið framboð sitt til baka.
Jakob þakkaði þinginu fyrir stuðninginn í ávarpi sínu og hvatti til samstöðu.
„Ég heiti því að gera mitt allra besta í starfi sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.“