Kommúnistar voru á undan jafnaðarmönnum

Íslenskir kommúnistar höfðu meiri áhrif og ítök hér á landi en víða annarstaðar. Í nýlegu sagnfræðiriti kemur fram að þeir hafi verið á undan jafnaðarmönnum að ná undirtökum í verkalýðshreyfingunni.

Í bókinni Nú blakta rauðir fánar: saga kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918–1968 rekur sagnfræðingurin Skafti Ingimarsson sögu kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918-1968 og dregur hann upp mynd af starfsemi kommúnista og sósíalista um land allt, en ekki bara í Reykjavík.

Hann leiðir ýmis rök að þvi af hverju kommúnistar voru mun áhrifameiri hér á landi en á hinum Norðurlandanna, að Finnlandi frátöldu og í viðtali í Dagmálum nefnir hann meðal annars hve flokkurinn var ótrúlega öflugur innan verkalýðshreyfingarinnar.

Voru búnir að koma sér fyrir

„Á hinum Norðurlöndunum voru jafnaðarmannaflokkarnir búnir að koma sér fyrir í pólitíska kerfinu áður en kommúnistaflokkarnir voru stofnaðir og í raun búnir að leggja undir sig verkalýðshreyfinguna. Þar komu kommúnistar því að lokuðum dyrum, en staðan hér var sú að Alþýðuflokkurinn var stofnaður 1916 og rússneska byltingin varð ári seinna. Alþýðuflokkurinn er svo ekkert búinn að leggja netin hringinn í kringum landið þegar Einar og Brynjólfur og þessir ungu menn sem voru við nám úti í Evrópu koma heim 1924 og bera hugmyndafræðina með sér.

Einar á þannig, til dæmis, mjög stóran þátt í því að koma verkalýðshreyfingunni á Norðurlandi á lappirnar og hann var kommúnisti þótt hann væri starfandi í Alþýðuflokknum. Kommúnistar ná því strax í upphafi ítökum í verkalýðshreyfingunni og það reyndist þeim mjög mikilvægt þegar fram í sótti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert