Læknirinn þarf að skilja þig

Með foreldrunum, Borgari Garðarssyni og Ann Sandelin, sumarið 1986, myndin …
Með foreldrunum, Borgari Garðarssyni og Ann Sandelin, sumarið 1986, myndin tekin við Hanaholmens kulturcentrum í Espoo í Finnlandi, nágrannaborg Helsinki. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er fædd í Finnlandi, pabbi er íslenskur leikari, Borgar Garðarsson, og mamma er finnsk. Hún vann á sínum tíma, áður en ég fæddist, í Norræna húsinu í Reykjavík, segir Silja Borgarsdóttir Sandelin, aðalritari Sænska þjóðarflokksins SFP á finnska þinginu sem auk þess hefur átt sæti í borgarráði Helsinki síðastliðin átta ár.

Silja talar reiprennandi íslensku án þess þó að hafa nokkurn tímann búið á Íslandi ef frá er talið stutt tímabil þegar hún starfaði hjá Máli og menningu. „Það var árið sem ég varð stúdent, annars hef ég aldrei búið á Íslandi. Pabbi talar íslensku við mig og mamma sænsku og saman tala þau sænsku,“ lýsir Silja hinu samnorræna æskuheimili sínu.

Fjölskyldan bjó um fimm ára skeið í Danmörku, þess utan hefur Silja verið búsett í Finnlandi og er upprunalega frá höfuðborginni Helsinki. Kveikja Íslandsdvalar hennar á sínum tíma var sú að foreldrar hennar töldu æskilegt að dóttirin öðlaðist meiri Íslandstengingu, verandi hálf af því þjóðerni.

„Þótt þú langförull legðir...“, íslenska lopapeysan á sínum stað. Silja …
„Þótt þú langförull legðir...“, íslenska lopapeysan á sínum stað. Silja kveður Finna mjög jákvæða í garð Íslendinga og segir þá almennt telja þjóðirnar keimlíkar. Áherslan er að minnsta kosti á fyrsta atkvæði í báðum tungumálunum. Ljósmynd/Aðsend

Erfitt að segja hlutina vel á Íslandi

„Ég fór fyrst í unglingavinnuna og ætlaði nú bara að vera þetta sumar, en þetta var svo gaman að ég framlengdi aðeins, fékk vinnuna í Máli og menningu og var á Íslandi í hálft ár,“ segir þingflokksritarinn frá, „Anna Einarsdóttir, vinkona foreldra vinna, vann þá þar og útvegaði mér vinnuna og þar var ég í nokkra mánuði, þetta var 2003,“ heldur hún áfram.

Aðspurð kveðst hún ekki útiloka frekari Íslandsdvöl, þvert á móti, lífið sé hins vegar bara orðið flóknara nú en fyrir 22 árum, „ég er komin með fjölskyldu og svo er ég að vinna í pólitík hér í Finnlandi og hún gengur öll út á tungumálið, ég þarf að geta sagt hlutina vel og það er bara rosalega erfitt á Íslandi,“ segir Silja og hlær dátt. Mæli hennar í þessu samtali endurspeglar vandamálið illa, Silja skilar íslenskunni lýtalaust frá sér, enda mælt á finnska tungu sem býður upp á harðsnúna málfræði.

Hvernig stendur á því að þú ferð út í stjórnmál sem virðast ekki blasa við í þinni nánustu fjölskyldu?

„Ég var í háskólanámi í Turku og fannst hlutirnir ekki alveg ganga nógu vel fyrir sig í skólanum svo ég fór í framboð í stúdentapólitíkinni,“ segir Silja frá sem reyndist búa yfir áður óþekktum kjörþokka innan stofnunarinnar. Rakaði hún til sín yfirgnæfandi meirihluta atkvæða og hlaut kosningu. Þar með var boltinn tekinn að rúlla og ekkert minna en Evrópuþingið fram undan.

Silja hóf stjórnmálaferilinn í stúdentapólitíkinni í Háskólanum í Turku og …
Silja hóf stjórnmálaferilinn í stúdentapólitíkinni í Háskólanum í Turku og fór nánast beint þaðan á Evrópuþingið 2009. Ljósmynd/Aðsend

„Það var þannig að nokkrum árum síðar var komið að máli við mig um það og það gekk bara mjög vel svo síðan hef ég verið í pólitík,“ segir Silja sem var í finnska handboltalandsliðinu þegar hún fór í framboð til Evrópuþingsins og þurfti að fórna handboltanum fyrir pólitíkina. Þetta var árið 2009 og greindi mbl.is frá því í stuttri frétt í apríl það ár að Íslendingur væri í framboði til Evrópuþingsins.

Sænskumælandi minnihlutinn lægra hlutfall

Silja nam stjórnmálafræði við Háskólann í Turku, tók hvort tveggja BA- og MA-próf í greininni. „Fyrst vann ég fyrir unglingadeild SFP og var svo aðstoðarmaður fjögurra ráðherra flokksins áður en ég varð aðalritari hans á þinginu,“ segir hún frá, en síðasti ráðherra finnsku ríkisstjórnarinnar sem Silja starfaði fyrir var íþrótta- og unglingamálaráðherra. Því ráðuneyti skarta Finnar. Þar á undan starfaði hún við hlið dómsmálaráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda og varnarmálaráðherra.

Blaðamaður spyr Silju út í stöðu sænskumælandi Finna, en í þeim minnihlutahópi landsins hefur nokkuð fækkað hin síðustu ár. Hljómar rödd þeirra enn hátt og skýrt í finnsku samfélagi?

„Já, ég myndi segja það,“ svarar Silja, „þeim hefur ekki fækkað tölulega, en þeir eru lægri prósenta af finnsku samfélagi í dag,“ heldur hún áfram og nefnir prósentutölu rétt undir sex prósentum. „Það sem er að gerast í Finnlandi núna er að þeim sem tala finnsku og sænsku fjölgar ekki, þeim sem tala önnur tungumál fjölgar hins vegar í samfélaginu og þar er ekki um neinn einn hóp að ræða sem talar eitt tungumál. Áður voru þetta mikið til Rússar, en nú er allt lokað þangað.“

Hún segir sænskuna enn standa styrkum fótum í Finnlandi, „en spurningin er þó alltaf sú í pólitíkinni hjá okkur í Sænska þjóðarflokknum hvort það sé betra að vera í stjórn eða stjórnarandstöðu og svarið er alltaf á þá leið að betra sé að vera í ríkisstjórn, þá gerist síður eitthvað sem geri það erfiðara að vera sænskumælandi Finni,“ segir flokksritarinn.

Silja, sonurinn Benjamín Ísar Siljuson og Birgitta Lindholm. Hún segir …
Silja, sonurinn Benjamín Ísar Siljuson og Birgitta Lindholm. Hún segir fólki sem tali önnur mál en finnsku og sænsku nú fjölga ört í Finnlandi. Áður munaði mjög um Rússa í þeirri fjölgun en þeim dyrum hefur verið lokað í bili. Ljósmynd/Aðsend

Mis-stirt á milli hópa

Barningurinn sé alltaf sá sami þegar líður að kosningum, „sem er að fá fólk til að kjósa, það er númer eitt. Af þeim sem kjósa okkur eru um það bil 75 prósent sænskumælandi og þá spyr maður sig alltaf hvort þeir af okkar kjósendum sem ekki eru sænskumælandi séu finnskumælandi eða tali önnur tungumál. Hjá síðastnefnda hópnum er mjög lítil kosningaþátttaka,“ segir Silja.

Hvernig eru þá samskipti þessara tveggja þjóðfélagshópa, finnsku- og sænskumælandi Finna, er einhver rígur?

Þetta segir Silja ákaflega mismunandi eftir tímabilum. „Núna finnst mér þetta til dæmis vera allt í lagi, en auðvitað eru alltaf einhverjir fúlir yfir að þurfa að læra sænsku í skólanum. Fyrir svona tíu árum var þetta miklu erfiðara, [stjórnmálaflokkurinn] Sannir Finnar vildu koma því á í Austur-Finnlandi að sænskunáminu væri skipt út fyrir rússnesku, en það fékk lítinn hljómgrunn, einn skóli skipti, en bara í stuttan tíma,“ segir Silja.

Hvaða mál eru það sérstaklega nú um stundir sem eru efst á baugi hjá Sænska þjóðarflokknum?

„Menntun er alltaf mjög ofarlega hjá okkur, að hún sé góð og að fólk geti menntað sig hvort tveggja á finnsku og sænsku. Það er alltaf númer eitt og svo er „social- och hälsovård“ þar strax á eftir,“ svarar Silja og útskýrir dæmi um mál sem flokkurinn er upptekinn af innan vébanda félagslegrar heilsuverndar.

„Ef þú veikist þarftu að skilja lækninn sem sinnir þér og hann þarf að skilja þig,“ segir hún og hljóta flestir að geta fallist á þetta. Þegar opinberu málinu í landinu eru fleiri en eitt verður auðvitað um áskorun að ræða.

Silja með heimaborgina í baksýn, hina geysivel skipulögðu Helsinki þar …
Silja með heimaborgina í baksýn, hina geysivel skipulögðu Helsinki þar sem allt virðist hafa tekist sem ekki tókst víða annars staðar á Norðurlöndum, svo sem í almenningssamgöngum og fleiru. Ljósmynd/Aðsend

Vilja enga innflytjendur

Sem þriðja hjartans mál flokksins nefnir Silja efnahagsmálin og segir Finna hafa staðið betur að vígi þar. „Efnahagur landsins er erfiður núna og eitt af því sem við skoðum sífellt er bara hvað gera megi betur,“ heldur Silja áfram og er spurð út í málefni innflytjenda í Finnlandi.

„Hér hjá okkur eru innflytjendur ekki margir í samanburði við til dæmis Danmörku og Svíþjóð, en umræðan um þá er hins vegar mjög hörð,“ segir Silja. „Í mínum flokki lítum við á innflytjendur sem eitthvað sem Finnland þarfnast. Þjóðin er að eldast, frjósemi er ekki nægilega mikil og við þurfum fólk sem getur unnið,“ heldur hún áfram.

Þessu sé harðlínuhægriflokkurinn Sannir Finnar ósammála. „Þeir vilja ekki fá neina innflytjendur og helst losna við þá sem þegar eru í landinu,“ segir Silja og hugsar sig ekki tvisvar um áður en hún svarar þeirri spurningu játandi að Sannir Finnar séu svokallaður hægriöfgaflokkur.

„Það er frábært að vera Íslendingur í Finnlandi. Finnar hafa …
„Það er frábært að vera Íslendingur í Finnlandi. Finnar hafa mjög jákvæða mynd af Íslandi og Íslendingum. Ég held að þeir sjái margt líkt með sjálfum sér og Íslendingum eins og sést af því hve vel þessum þjóðum gengur að eiga í norrænu samstarfi.“ Ljósmynd/Aðsend

En nóg um pólitískt hjal að sinni. Hver skyldi upplifun Íslendings í Finnlandi vera? Við horfum fram hjá því að Silja hafi bara búið á Íslandi um hálfs árs skeið.

„Það er frábært að vera Íslendingur í Finnlandi. Finnar hafa mjög jákvæða mynd af Íslandi og Íslendingum. Ég held að þeir sjái margt líkt með sjálfum sér og Íslendingum eins og sést af því hve vel þessum þjóðum gengur að eiga í norrænu samstarfi. Hér er íslenskt sendiráð og þar eru stundum samkomur, til dæmis jólaböll, en annars er ekki mikið um skipulagðar samkomur Íslendinga hér,“ segir Silja sem einnig kveðst muna eftir íslenskum sunnudagaskóla í Finnlandi þegar hún var barn. Hann sé þó horfinn á braut.

Stefnir ótrauð á þing

Aðspurð kveðst hún stefna ótrauð á þing í kjölfar næstu kosninga árið 2027. Silja hefur tvívegis verið í framboði og í bæði skiptin hafnað í þriðja sæti, en í Finnlandi er persónukjör, ekki listakosning. Hún segir baráttuna harða við að fá eitt þeirra 200 finnsku þingsæta sem í boði eru – og ekki má gleyma því að Finnar ganga til sveitarstjórnarkosninga í vor. Þar gefur hún kost á sér til áframhaldandi setu.

Silja Borgarsdóttir Sandelin kveðst þó líklega ekki verða á vettvangi stjórnmálanna alla sína ævi. En ævin sú er langt í frá liðin og fram undan eru kosningar í hverjum aðalritari Sænska þjóðarflokksins á finnska þinginu mun freista gæfunnar á nýjan leik. Vogun vinnur, vogun tapar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert