Náttúrulögmálin og Armeló tilnefnd

Eiríkur Örn Norðdahl og Þórdís Helgadóttir.
Eiríkur Örn Norðdahl og Þórdís Helgadóttir. Samsett mynd

Skáldsagan Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl og skáldsagan Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025 fyrir Íslands hönd. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðurlandaráði. 

Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins. Tilkynnt verður um vinningshafa ársins 21. október og verðlaunin sjálf afhent í Stokkhólmi 28. október í tengslum við 77. þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur eða rúmar 5,8 milljónir íslenskra króna.

Kápur tilnefndu bókanna í ár.
Kápur tilnefndu bókanna í ár.
  • Frá Álandseyjum er tilnefnd ljóðabókin Marconirummet eftir Carinu Karlsson.
  • Frá Danmörku eru tilnefndar dagbókarskáldsagan Dødebogsblade eftir Madame Nielsen og skáldsagan Insula eftir Thomas Boberg.
  • Frá Finnlandi eru tilnefndar skáldsagan Rusetti eftir Anu Kaaja og skáldsagan Min psykiater eftir Milju Sarkola. Frá Færeyjum er tilnefnd ljóðabókin Svørt orkidé eftir Vónbjørt Vang. 
  • Frá Grænlandi er tilnefnd skáldsagan Qaamarngup taartullu akisugunneri eftir Lisathe Møller.
  • Frá Íslandi eru tilnefnd skáldsagan Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl og skáldsagan Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur. 
  • Frá Noregi eru tilnefndar skáldsagan Under brosteinen, stranden! eftir Johan Harstad og leikritið I vårt sted Arne Lygre.
  • Frá samíska málsvæðinu er tilnefnd skáldsagan Goatnelle eftir Jalvvi Niillas Holmberg.
  • Frá Svíþjóð eru tilnefnd ljóðabókin Rubicon / Issos / Troja eftir Lotta Lotass og skáldsagan Händelseboken eftir Andrzej Tichý. 
Ljósmyndir af öllum þeim höfundum sem tilnefndir eru til Bókmenntaverðlauna …
Ljósmyndir af öllum þeim höfundum sem tilnefndir eru til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025.

Tekist á við samhengi og rök tilverunnar

Íslensku dómnefndina skipa Kristján Jóhann Jónsson, Silja Björk Huldudóttir og Soffía Auður Birgisdóttir, sem er varamaður.

Í umsögn dómnefndar um Náttúrulögmálin sem Mál og menning gefur út segir: „Í skáldsögu Eiríks er djarflega tekist á við samhengi og rök tilverunnar. Sögusviðið er Ísafjörður árið 1925, persónur eru fjölmargar og í rás sögunnar myndast umtalsverð spenna milli heimamanna og guðsmanna, þjóðtrúar og guðstrúar, trúar almennt og vísinda, siðmenningar og náttúrulögmála. Drykkjuskapur og lauslæti eru frekar regla en undantekning í fari bæði Ísfirðinga og prestastéttarinnar sem mætt er á staðinn.

Sagan hefst á því að hempuklæddir prestar streyma inn í bæinn úr öllum áttum. Til stendur að halda fjölmennustu prestastefnu Íslands. Guðsmennirnir fá sér í staupinu og fletta upp um sig hempunum þegar því er að skipta. Bæjarbúar kunna því vel, nema þegar prestarnir stinga af með eiginkonur þeirra. Foringi prestaflokksins er Herra Jón Hallvarðsson, yngsti og myndarlegasti biskup Íslands fyrr og síðar. Hann er fagur, blíðlyndur, drykkfelldur og viðkvæmur. Biskupnum hefur verið uppálagt að afsanna tiltekna þjóðsögu, og styrkja með því kristna trú. Það endar með skelfingu. Í því ferli birtist guð Ísfirðingunum og prestunum, líkamnast í fjallinu ofan við bæinn.

Þegar fulltrúi himnaríkis hefur ráðskast með söguþráðinn er auðvitað von á þeim úr neðra og „árum“ hans. Sú innkoma er lævísleg eins og við má búast.

Vegna kraftaverkanna sem í sögunni verða er stefnt inn á sögusviðið hópi vísindamanna til þess að vinna bug á meinlokum alþýðunnar. Þeir mæla allt og rökræða mikið, prestum og Ísfirðingum til lítillar ánægju. Þjóðtrúin á ekki samleið með kristinni trú, trúin vill ekki vísindi, vísindamennirnir ná hvorki sambandi við Ísfirðinga né presta en fulltrúar himnaríkis og helvítis ná ágætu sambandi öðru hverju við suma!

Biskupinn kynnist búðarlokunni Engilráð og ástarsaga þeirra nær sér á flug, þrátt fyrir gerólíka þjóðfélagsstöðu. Tryggðin og lauslætið takast á, stéttaskiptingin fær engum vörnum við komið þegar nánd ástarinnar, eða greddan, krefst réttar síns. Andstæðurnar spretta alls staðar fram.

Lítilmótlegasta alþýðukerling bæjarins, verður, eftir heimsókn guðs í þorpið, andlegur leiðtogi lítils safnaðar sem ber hana um í hjólbörum og leitar ráða hjá henni. Séra Jónas mannspartur, hinn dvergvaxni sóknarprestur Ísafjarðar, gnæfir (þrátt fyrir smæð sína) yfir prestahjörðina. Náttúrulögmálin hrósa sigri að lokum.“

Óvenjulegt ferðalag

​Í umsögn dómnefndar um Armeló sem Mál og menning gefur út segir: „Í skáldsögunni Armeló býður Þórdís Helgadóttir lesendum í óvenjulegt ferðalag sem er í senn seiðandi, margslungið og spennandi. Verkið hverfist um konu sem veit fátt verra en að ferðast. Í upphafi bókar er Elfur engu að síður stödd í smábæ á meginlandi Evrópu í miðri hitabylgju að sumarlagi ásamt Birgi, eiginmanni sínum.

Þegar Birgir hverfur skyndilega ásamt öllum farangri þeirra hjóna og bílnum sem þau ferðuðust í eru góð ráð dýr. Fram til þessa hefur framtaksleysi einkennt líf Elfar, en þessar undarlegu kringumstæður neyða hana til athafna og fyrr en varir heldur hún fótgangandi beint af augum út í skóg í nokkurs konar pílagrímsferð án þess að vita hvar hún muni að lokum enda. Við tekur marglaga för á mörkum fantasíu og raunsæis þar sem höfundur nýtir sér dulspeki, gólem- og tvífaraminnið með skapandi og ferskum hætti til þess meðal annars að beina sjónum að þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í samtímanum.

Við sögu kemur nýsköpunarfyrirtækið Nanoret sem hefur það að markmiði að útrýma öllum augnsjúkdómum heimsins og nýtir slagorðið „seeing clearly“ eða skýr sýn. En hvað felst í því að sjá skýrt og hvernig tengjast stolnar augnhimnur áformum forsvarsmanna fyrirtækisins? Hvað gerum við þegar sannleikurinn leynist undir yfirborðinu og mögulega úr augsýn? Hvernig tæklum við það þegar sannleikurinn blekkir og blekkingin virkar raunverulegri en veruleikinn? Og hvernig nálgumst við sannleikann í heimi þar sem ofgnótt upplýsinga villir okkur svo auðveldlega sýn? Hvenær þekkjum við raunverulega aðra manneskju, nú eða okkur sjálf? Tilvistarlegar og frumspekilegar spurningar á borð við þessar eru áberandi í Armeló og blandast með kraftmiklum hætti saman við vangaveltur um persónuleika, sjálfsvitund og ímyndarsköpun. Í skáldsögunni tekst höfundur einnig á heillandi hátt á við áleitnar spurningar um samkennd og svik.

Þórdís býður lesendum upp í trylltan dans og þeytir þeim í óteljandi hringi þar sem hún ögrar skynjuninni með óvæntum rangölum, ólíku sjónarhorna mismunandi sögupersóna, skemmtilegu tímaflakki og fjölskrúðugu persónugalleríi. Í bland við góðan húmor, ljóðrænan stíl, yfirnáttúrulega fléttu og sterkt myndmál skapar Þórdís einstaklega hrífandi rússíbanareið fyrir forvitna og hugrakka lesendur.“

Eiríkur Örn Norðdahl og Þórdís Helgadóttir í Gunnarshúsi fyrr í …
Eiríkur Örn Norðdahl og Þórdís Helgadóttir í Gunnarshúsi fyrr í dag. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Kröfur um listrænt gildi

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk, ljóðabók, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi.

Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á menningarsamkennd Norðurlanda og að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði lista.

Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins verða aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins þegar það verður opnað aftur í júní eftir viðhald á húsnæðinu. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi.

Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefnum: norden.org/is/bokmenntaverdlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert