Þrír dæmdir í kjölfar nafnlausrar ábendingar

Samkvæmt ákærunni voru mennirnir með í vörslum sínum 2.943,38 grömm …
Samkvæmt ákærunni voru mennirnir með í vörslum sínum 2.943,38 grömm af MDMA-kristölum og 1.781 MDMA-töflu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt þrjá karlmenn fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, eða þá Samúel Jóa Björgvinsson, Elías Shamsudin og Jónas Shamsudin, sem eru bræður. Samúel hlaut þriggja og hálfs árs dóm en Elías og Jónas tveggja og hálfs árs dóm hvor. 

Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur mönnunum 20. desember. Þeir voru allir ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í félagi haft um nokkurt skeið, fram til miðvikudagsins 2. október 2024, í vörslum sínum 2.943,38 grömm af MDMA-kristölum og 1.781 MDMA-töflu, sem voru ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni, og mennirnir geymdu í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi.

Lögreglan skipti fíkniefnunum út fyrir gerviefni

Fram kemur í ákærunni að mennirnir hafi komið saman að kvöldi miðvikudagsins 2. október 2024 í húsnæðinu í því augnamiði að sækja efnin, en lögregla hafði þann 23. september 2024 skipt MDMA-kristölunum út fyrir gerviefni. Elías og Jónas sóttu efnin þar sem þau voru falin og bar Samúel Jói efnin út úr húsnæðinu og setti þau inn í bifreið Elíasar, sem ók bifreiðinni að ónefndum stað í Reykjavík, þar sem hann og Samúel Jói voru handteknir með efnin meðferðis.

Þá var Samúel Jói ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa miðvikudaginn 2. október 2024 haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, 153,29 grömm af kókaíni, 5,10 grömm af MDMA, 223,58 grömm af metamfetamíni í kristalsformi, 22 MDMA-töflur og 788 töflur sem innihéldu fíknilyfið brómazólam, sem lögreglumenn fundu við leit á dvalarstað hans í Reykjavík.

Þá var Jónas ákærður fyrir fíkniefnalaga- og vopnalagabrot með því að hafa miðvikudaginn 2. október 2024 haft í vörslum sínum 4,60 grömm af kókaíni, tvö stunguvopn og tvö höggvopn (hnúajárn og felukylfu) sem lögreglumenn fundu við leit á heimili hans í Mosfellsbæ.

Þá voru ákærur á hendur Samúel vegna umferðarlagabrota sameinaðar þessu máli.

Lögreglu barst nafnlaus ábending

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 12. febrúar en var birtur í gær, að samkvæmt málsgögnum hafi rannsókn málsins hafist þegar lögreglu barst nafnlaus ábending um að fíkniefni væri að finna í skrifstofuhúsnæði á annarri hæð í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi.

Er aðstæðum lýst svo í skýrslu lögreglu að þegar komið er upp stigann á annarri hæð er þar á hægri hönd skrifstofurými sem var yfirgefið. Í því rými eru tvær skrifstofur við suðurhlið hússins og er umrætt rými þar á vinstri hönd. Rýmið sem var í eigu ónefnds aðila og hafði staðið autt um tíma þegar atvik gerðust. Elías og Jónas voru með á leigu annað rými á hæðinni undir skrifstofu.

Í yfirgefna skrifstofurýminu fann lögregla fíkniefni í gulum Bónuspoka ofan við loftplötu í millilofti. Var um að ræða þrjár pakkningar, tvær voru teipaðar með svörtu límbandi og ein með glæru límbandi. Ein pakkningin var opnuð á vettvangi og forprófuð og gaf jákvæða svörun sem MDMA.

Efnin voru fjarlægð og flutt til tæknideildar þar sem þau voru forprófuð á ný og staðfest að um MDMA væri að ræða. Þá var efnið vigtað og reyndist ein pakkningin vera 987,67 gr. að þyngd, önnur 962,87 gr. og sú þriðja 992,84 gr., eða alls 2.943,38 gr.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að samkvæmt málsgögnum hafi rannsókn …
Fram kemur í dómi héraðsdóms að samkvæmt málsgögnum hafi rannsókn málsins hafist þegar lögreglu barst nafnlaus ábending um að fíkniefni væri að finna í skrifstofuhúsnæði á annarri hæð í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fékk heimild til að setja upp hljóð- og myndbandsupptökubúnað

Lögregla kom fyrir gerviefnum í stað fíkniefnanna og með úrskurði héraðsdóms var fengin heimild til að koma fyrir hljóð- og myndbandsupptökubúnaði í rýminu og til að koma fyrir eftirfarar- og upptökubúnaði í pakkanum með gerviefnunum. Liggur fyrir upptaka í hljóði og mynd sem m.a. var tekin upp í gegnum upptökubúnaðinn, bæði utandyra og í því rými þar sem gerviefnin voru geymd.

Fram kemur í dómnum að Samúel hafi játað sök hvað varðar fyrsta kafla ákærunnar um stórfellt fíkniefnalagabrot, þó með þeim fyrirvara að hann hafi ekki komið með MDMA-töflurnar fyrr en 2. október.

Elías og Jónas neituðu aftur á móti sök. Elías kvaðst hafa tekið við Bónuspoka með MDMA-kristölum frá Samúel, sett hann upp á loftið og tekið hann niður, ásamt meðákærðu, þann 2. október. Hann hafi ekki vitað hvað var í pokanum. Jónas kvaðst ekki hafa vitað af pokanum fyrr en þeir tóku hann niður af loftinu þann 2. október og ekki hafa vitað hvað var í honum.

Eiga sér engar málsbætur

Héraðsdómur segir aftur á móti að það sé talið hafið yfir skynsamlegan vafa að þremenningarnir hafi allir vitað að pakkinn sem þeir voru að sækja innihéldi fíkniefni. Ekki hafi verið að sjá á upptöku sem var gerð að magn efnisins hafi komið þeim á óvart enda hafi þeir rætt bæði um eitt og þrjú kg og öll þrjú.

„Ákærðu í máli þessu eru sakfelldir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot fyrir vörslur á miklu magni fíkniefna til söludreifingar í ágóðaskyni. Var háttsemi ákærðu liður í því að koma efnunum í dreifingu. Auk framangreinds verður einnig við ákvörðun refsingar ákærðu litið til þess að ákærðu frömdu brotið í félagi og til sakaferils ákærðu,“ segir í niðurstöðukafla dómsins. Tekið er fram að mennirnir eigi sér engar málsbætur.

Þá var Samúel dæmdur til að greiða málsvarnalaun skipaðs verjanda síns, eða 5,4 milljónir kr. Þeir Elías og Jónas voru dæmdir til að greiða tvo þriðju hluta málsvarnalaunanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert