Spáð er umhleypingasömu veðri næstu dagana. Talsverður lægðagangur er við landið og má búast við hvassviðri eða stormi víða um land með rigningu, slyddu og éljum til skiptis.
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og miðhálendinu vegna hvassviðris eða storms og hríðar og taka þær gildi um miðnætti í kvöld.
„Ég myndi nú ekki beint kalla þetta óveður en það verður stormur víða um land,“ segir Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hann segir að það byrji að snjóa sem breytist svo í rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu seint í kvöld. Það verður hvassast á norðanverðu Snæfellsnesi þar sem geta orðið öflugir vindstrengir sem og á hálendinu.
„Það mun hlýna í veðri með þessari lægð og það verður talsverð úrkoma á Snæfellsnesi og við suðurströndina sem verður þá aðallega rigning,“ segir hann.
Hann segir að skilin fari af landinu um hádegisbilið á morgun. Í fyrstu verður hlýtt loft yfir landinu en seinni partinn muni kólna í veðri með éljum. Um kvöldið verður hitinn um frostmark um mest allt land og éljagangur víða.
„Næsta lægð er svo væntanleg með rigningu og hlýindum seint á laugardaginn en á sunnudaginn kólnar aftur í veðri með útsynningi og éljum. Það verður lægðagangur næstu daga og umhleypingasamt veður,“ segir hann.