Yfir 11 milljónir króna hafa safnast fyrir endurbótum á sundlaug Reykjadals, en þar hefur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekið sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni í 62 ár.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra.
Segir þar að sundlaug Reykjadals hafi alla tíð verið hjarta starfseminnar og að gestir fari jafnvel í laugina nokkrum sinnum á dag.
Hún hafi hins vegar staðið fyrir verulegum viðhaldsþörfum og hófst því söfnunarherferð daginn fyrir sumardaginn fyrsta til að tryggja áframhaldandi öryggi og ánægju gesta.
Var markmið styrktarfélagsins að safna 10 milljónum króna til að gera nauðsynlegar lagfæringar.
Segir í tilkynningunni að viðbrögðin hafi hins vegar verið ótrúleg og að 11 milljónir króna hafi safnast á aðeins tveim dögum.
„En við stoppum ekki þar! Draumurinn er að safna 20 milljónum króna, sem myndi gera okkur kleift að uppfæra allan búnað sundlaugarinnar og tryggja að hún verði enn betri og öruggari fyrir alla gesti.
Við erum djúpt snortin af þessum viðbrögðum og þakklát fyrir þann samhug sem samfélagið hefur sýnt. Þetta sýnir að saman getum við gert ótrúlega hluti,“ segir í tilkynningunni.
Söfnunin heldur áfram á sofnun.reykjadalur.is og eru allir hvattir til að taka þátt og hjálpa við að ná markmiðinu.