Nemendafélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ afhenti barna- og unglingageðdeild Landspítalans ávísun upp á 1,2 milljónir króna í gær.
Góðgerðarvika NFFG fór fram dagana 7.-11. apríl og var að þessu sinni haldin til styrktar BUGL.
Jónas Breki Kristinsson, formaður íþróttanefndar skólans, segir nemendur hafa langað til að styrkja málefni sem snerti bæði á nemendum skólans og samfélaginu í heild sinni, því hafi BUGL orðið fyrir valinu.
„Við í nemendafélaginu settum okkur hátt markmið fyrir vikuna og vildum safna einni milljón. Vikan einkenndist af áheitasöfnun fyrir áskoranir, dósasöfnun og góðgerðahlaupi,“ segir Jónas. Að viku lokinni kom þó í ljós að nemendur höfðu í sameiningu safnað 1.200.000 kr.
„Það var mjög gaman að sjá kraftinn í skólasamfélaginu, sjá alla koma saman og safna fyrir svona mikilvægu málefni,“ segir Jónas stoltur.
Aðspurður segir hann þær áskoranir sem nemendur uppfylltu hafa meðal annars verið að aflita á sér hárið, vera handjárnaður í skólanum, gista í skólanum, hlaupa frá Garðabæ til Keflavíkur og keyra hringinn í kringum landið á 20 tímum.
Skólameistarinn, Kristinn Þorsteinsson, hafi einnig tekið þátt en áskorun hans hafi verið að fá sér tattú. Aðspurður segist Jónas því miður ekki eiga mynd af því ennþá. Kristinn vilji ekki gefa upp hvernig tattúið verði fyrr en eftir tímann, sem hann er búinn að panta og bíður spenntur eftir.