Isavia hefur bætt við stöðugildi sem verður með viðveru á aðkomusvæði Keflavíkurflugvallar. Er starfsgildinu ætlað að bæta þjónustu við viðskiptavini með því að fylgjast með leigubílum, rútum og öllu því sem tengist að komast til og frá flugvellinum.
Þetta staðfestir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá.
„Eitt af því sem viðkomandi starfsmaður er að fara gera er að fylgjast með leigubílunum og aðstoða kúnna á leigubílasvæðinu og annars staðar,“ segir hann.
Síðustu daga hefur verið fjallað um yfirtöku hóps erlendra leigubílstjóra á kaffiskúr leigubílstjóra í eigu Isavia.
Á leigubílastæðinu sjálfu, þar sem leigubílar eru í röðum að bíða eftir farþegum, eru oft mikil vandræði eins og fjallað hefur verið um áður. Leigubílstjórar sem mbl.is hefur rætt við segja að ákveðnir leigubílstjórar reyni að svindla á kúnnum og oft sýður upp úr í samskiptum leigubílstjóranna.
„Við erum að bæta þjónustuna á aðkomusvæðinu og við höfum sem aðstöðuveitandi verið að ganga tiltölulega skýrt fram að þeir leigubílar sem koma inn á svæðið okkar séu að uppfylla leigubílalögin eins og þau eru sett,“ segir Guðmundur.
Hann nefnir í því samhengi að Isavia reyni að koma í veg fyrir að svindlað sé á kúnnum og að verðskrá sé sýnileg í gluggum.
Aftur á móti veltir hann því fyrir sér hvort að Samgöngustofa og lögreglan eigi ekki frekar að sinna slíku hlutverki frekar en hlutafélag.
En ráðning starfsmannsins er ekki bara til að aðstoða fólk vegna leigubíla heldur er verið að horfa heildstætt á alla komu til og frá flugvellinum sem þjónustu og reynt að tryggja gæði hennar fyrir viðskiptavini.
„Við viljum að farþegarnir okkar, sem eru okkar aðalviðskiptavinir, að þeir upplifi sömu gæðaþjónustu og öryggi hvort sem þeir taka rútu, leigubíl, fara á hjóli eða leggja bílnum sínum hjá okkur eða öðrum, eða taka bílaleigubíl eða eru sóttir af ættingjum. Við viljum bara að þjónusta sé í öllum tilvikum góð og hún sé til fyrirmyndar,“ segir Guðmundur.