Vesturbæjarlaug, sem hefur verið lokuð síðan 26. maí, mun ekki opna fyrr en 15. júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í dag.
Áður hafði Reykjavíkurborg gefið út að laugin skyldi opna þann 23. júní.
Ástæða lokunarinnar er sögð vera umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir. Nú hafi komið upp ófyrirséð atriði sem hafi haft áhrif á framvindu verksins.
Laugakerfið, sem er frá 1961, er talið vera í verra ásigkomulagi en gert var ráð fyrir í upphafi. Því sé nauðsynlegt að ráðast í umfangsmeiri múrviðgerðir en áður var gert ráð fyrir.
Í tilkynningunni segir að nauðsynlegt sé að taka múrvirkið sem liggur yfir laugakerfi sundlaugarinnar í burtu svo hægt sé að komast að því.
Framkvæmdaaðilar séu að ganga frá því eins vel og hægt er til að koma í veg fyrir frekari framkvæmdir á því og þar með lokanir í framtíðinni.
Þá segir einnig að tíminn verði nýttur í önnur verkefni meðan þetta meginverkefni sé klárað.
Anna Kristín Sigurðsdóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, þakkar sundlaugagestum kærlega fyrir skilninginn og þolinmæðina og segir að allt kapp sé lagt á að klára viðgerðina í tæka tíð.