Umboðsmaður Alþingis metur nú hvort hann hyggist taka til skoðunar málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar í málum vegna afgreiðslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt og hefur af þessu tilefni ritað stofnuninni bréf þar sem segir í niðurlagi:
Er þess jafnframt óskað að Útlendingastofnun skýri nánar hvernig það samræmist málshraðareglum stjórnsýsluréttar að umsóknir um ríkisborgararétt sem stofnuninni hafa borist frá desember 2023 hafi enn sem komið er ekki verið teknar til vinnslu. Er þá sem fyrr höfð hliðsjón af því að skilyrði fyrir því að ríkisborgararéttur verði veittur með stjórnvaldsákvörðun, sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, lúta að mestu leyti að hlutlægum atriðum sem koma fram í gögnum sem umsækjendur láta stofnuninni í té samhliða umsóknum sínum.
Á heimasíðu sinni gerir umboðsmaður grein fyrir því að hann hafi áður haft afgreiðslutíma umsókna um ríkisborgararétt til athugunar, en hafi þá ekki talið ástæðu til að aðhafast frekar, að svo stöddu, í kjölfar breytinga á verklagi Útlendingastofnunar sem gerðu það að verkum að málsmeðferðartíminn styttist úr sextán mánuðum í sex.
Nú væru hins vegar komnar fram vísbendingar um að málsmeðferðartíminn kynni að vera að minnsta kosti eitt og hálft ár og því óskað eftir því að stofnunin geri grein fyrir ástæðum þessa. Segir svo:
Þá er óskað skýringa á því hvernig það samræmist málshraðareglum stjórnsýsluréttar að umsóknir um ríkisborgararétt sem stofnuninni hafa borist frá desember 2023 hafi enn sem komið er ekki verið teknar til vinnslu.
Vísar umboðsmaður til fram kominnar kvörtunar til hans um málsmeðferðartímann og veitir Útlendingastofnun frest til 30. júní til að leggja fram svör sín um ástæður þessa.