Stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á úkraínsk börn. Þau hafa ekki aðgengi að menntun eða heilbrigðisþjónustu og þau hafa misst foreldri eða verið aðskilin frá öðru eða báðum foreldrum vegna stríðsins.
Jafnframt hafa mörg börn verið þvinguð til Rússlands þar sem Rússar þvinga þau til þess að gleyma sjálfsmynd sinni og tungumáli og séu látin ganga í rússneksa herinn.
Þetta segir Yulia Kyrpa, framkvæmdastjóri AEQUO og stjórnarmaður tjónaskrár Evrópuráðsins fyrir Úkraínu, í samtali við mbl.is að loknum málfundi um vernd úkraínskra barna.
Hún segir börnin í Úkraínu þurfa aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu og mannúðaraðstoð.
Kyrpa segir mikilvægt að börn sem voru þvinguð til Rússlands skili sér heim þar sem þau sitja nú undir rússneskum áróðri. Börnin eru þvinguð til þess að gleyma tungumáli sínu og sjálfsmynd sinni og er talin trú um að fortíð þeirra sé lygi og að framtíð þeirra sé með öllu tengd Rússlandi.
„Mannréttindabrot gegn börnum þurfa að stoppa og Rússum á að vera refsað fyrir stríðsglæpi,“ segir Yulia.
Almenningur í Úkraínu er þakklátur fyrir það að tjónaskrá Evrópuráðsins fyrir Úkraínu sé komin á laggirnar. Tjónaskránni hefur nú borist um 35.000 mál þar sem bent er á tjón í Úkraínu af völdum Rússa.
Hún segir tjónaskránna skapa von í brjósti Úkraínumanna, þar sem hún sé fyrsta skref í átt að jafnrétti í Úkraínu.