Guðrún Erla Sigurðardóttir, eigandi efnalaugarinnar Bjargar í Mjódd, segir ganga vel að hreinsa eftir brunann sem varð í Efnalauginni Björg að Háaleitisbraut aðfaranótt fimmtudags. Hún segir þau virkilega þakklát starfsfólki sínu sem hafi verið ómetanlegt seinustu daga.
„Við hefðum ekki getað gert þetta án þeirra,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.
Þau hafa verið að taka við fötum frá Háaleitisbraut síðan á föstudag og hafa unnið fram á kvöld síðan þá við að hreinsa flíkur þaðan.
„Við byrjuðum að fá föt hingað uppeftir á föstudaginn og við vorum hérna á föstudagskvöld og í allan gærdag fram á kvöld og erum hér núna og erum að hreinsa og hreinsa og þeir koma með fatnað hingað til okkar frá Háaleiti jafn óðum,“ segir Guðrún.
Hún segir þau vera að vinna fatnaðinn og að fólk eigi von á skilaboðum frá þeim á morgun, ekki allir, en að það verði vonandi einhver hluti tilbúinn á morgun.
„Við erum að gera okkar allra besta, okkur þykir þetta mjög leiðinlegt. Við gerum það sem við getum af því að við vitum að fólk er með tilfinningagildi í sínum fatnaði og manni þykir vænt um fötin sín og okkur þykir vænt um það sem við erum með í höndunum.“
Ekki er enn vitað um upptök eða orsök eldsins.