Ævintýraheimur Múmínálfanna rís nú í Kjarnaskógi á Akureyri, en Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri skógræktarfélags Eyfirðinga segir skóginn tilvalinn ævintýraskóg fyrir verkefni sem þessi.
„Þetta á sér langan aðdraganda, Kjarnaskógur er lýðheilsuparadís Akureyringa. Við höfum unnið skóginn út frá því, til að þjónusta allskonar útivist, þar á meðal erum við með þrjú leiksvæði sem eru mjög mikilvæg í því samhengi. Ekki bara vegna þess að þar eru leiktæki, heldur kemur þetta hreyfingu á fólkið,“ segir Ingólfur.
Hann segir þau ungu geta dregið þá sem eldri eru í góða göngutúra, jafnvel þótt þeir nenni því ekki.
„Ég er til dæmis afi og fer með barnabarnið mitt á eitthvað leiksvæði og nenni ekkert að hreyfa mig en krakkinn veit af aparólunni á hinu leiksvæðinu og dregur mig þangað og svo veit hann af ærslabelgnum á þriðja svæðinu og úr þessu verður heljarinnar göngutúr.“
Ingólfur segir staðinn tilvalinn ævintýraskóg því að trén eru svo kræklótt og ævintýraleg. Í kjölfarið hafi þau ákveðið að drífa verkefnið í gang.
„Þarna er trjálundur sem við höfum verið að reyna að finna fyrir hlutverk og hann á sér sögu aftur þegar forverar mínir voru að gróðursetja Kjarnaskóg en þá þurfti að prófa allskonar plöntur og þær sem tórðu voru Síberíulerkir sem var plantað í þennan reit.“
Enn á eftir að reisa fleiri mannvirki sem tengjast ævintýri Múmínálfanna. Meðal þess er Múmínbrúin, skipið og tjaldið. „Við vinnum að þvi í sumar að ýta þessu áfram,“ segir Ingólfur.