Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar, segir að þrátt fyrir mótmæli vegna breytinga á skipulagi félagsmiðstöðva bæjarins hafi ákvörðunin ekki verið endurskoðuð.
Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi (Samfés), Félag fagfólks í frístundaþjónustu á Íslandi (FFF) og Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) höfðu mótmælt breytingunum og skorað á bæjaryfirvöld að endurskoða ákvörðun sína í virku og opnu samráði við fagfólk, börn og ungmenni.
Kristín segir að markmiðið með breytingunum sé að færa þjónustuna nær börnum og styrkja félagsmiðstöðva- og forvarnarstarf innan skólanna.
„Við getum þannig aukið opnun félagsmiðstöðva og aukið forvarnarstarf innan veggja skólanna, bæði á dagvinnutíma og utan. Við sjáum fyrir okkur að með þessu getum við styrkt þjónustu á fyrsta stigi farsældar barna,“ segir Kristín.
Aðspurð segir hún að breytingarnar hafi ekki verið ræddar sérstaklega við ungmennaráð vegna viðkvæmni málsins. „Þegar breytingar eru svona viðkvæmar, hvað varðar störf og hagsmuni einstaklinga, þá er ekki endilega hægt að fara með það í hópinn og ræða sérstaklega,“ segir Kristín.
Gagnrýni um að skólar geti ekki komið í stað félagsmiðstöðva vísar hún á bug.
„Félagsmiðstöðvar sem miðlæg eining hætta, en það verður í staðinn til félagsmiðstöð í hverjum einasta skóla. Það er kannski líka eitthvað sem hefur ekkert mikið komið fram, að félagsmiðstöðvarnar eru í nær öllum tilvikum í skólanum. Breytingin er í grunninn sú að breyta skrifstofuaðstöðu úr miðlægri skrifstofu í starf í skóla,“ segir hún.
Varðandi gagnrýni um neikvæða reynslu Hafnarfjarðar af sambærilegu fyrirkomulagi segir Kristín að horft hafi verið meðal annars til reynslu erlendis.
„Við vorum ekki eingöngu að horfa til Hafnarfjarðar. Við þekktum til þess skipulags. Við vorum að horfa út frá okkar eigin áskorunum og þörfum hér,“ segir hún.
Kristín bætir við að sérstaklega verði haldið áfram með sérhæfða starfsemi eins og hinsegin félagsmiðstöð og starf fyrir eldri ungmenni.
„Það er í rauninni ekki verið að hætta með neitt af því sem verið hefur,“ segir hún og undirstrikar að ungmennum verði tryggð þátttaka í þróun starfsins.
Kristín segir ákvörðunina ekki vera sparnaðaraðgerð heldur þvert á móti ætlað að auka þjónustu við börn og ungmenni. „Það er engin hagræðingarhugmynd í þessu. Við erum í rauninni að auka við,“ segir hún.
Hún staðfestir að breytingarnar taki gildi þann 1. september næstkomandi og verði metnar á komandi misserum. „Að sjálfsögðu munum við endurmeta þetta ef reynslan verður neikvæð,“ segir Kristín að lokum.