Ákvörðun ekki endurskoðuð þrátt fyrir mótmæli

Akureyrarkirkja gnæfir yfir miðbæ Akureyrar á sólskinsdegi.
Akureyrarkirkja gnæfir yfir miðbæ Akureyrar á sólskinsdegi. mbl.is/Árni Sæberg

Krist­ín Jó­hann­es­dótt­ir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsu­sviðs Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar, seg­ir að þrátt fyr­ir mót­mæli vegna breyt­inga á skipu­lagi fé­lags­miðstöðva bæj­ar­ins hafi ákvörðunin ekki verið end­ur­skoðuð. 

Lands­sam­tök fé­lags­miðstöðva og ung­menna­húsa á Íslandi (Sam­fés), Fé­lag fag­fólks í frí­stundaþjón­ustu á Íslandi (FFF) og Fé­lag íþrótta-, æsku­lýðs- og tóm­stunda­full­trúa á Íslandi (FÍÆT) höfðu mót­mælt breyt­ing­un­um og skorað á bæj­ar­yf­ir­völd að end­ur­skoða ákvörðun sína í virku og opnu sam­ráði við fag­fólk, börn og ung­menni.

Krist­ín seg­ir að mark­miðið með breyt­ing­un­um sé að færa þjón­ust­una nær börn­um og styrkja fé­lags­miðstöðva- og for­varn­ar­starf inn­an skól­anna.

„Við get­um þannig aukið opn­un fé­lags­miðstöðva og aukið for­varn­ar­starf inn­an veggja skól­anna, bæði á dag­vinnu­tíma og utan. Við sjá­um fyr­ir okk­ur að með þessu get­um við styrkt þjón­ustu á fyrsta stigi far­sæld­ar barna,“ seg­ir Krist­ín.

Aðspurð seg­ir hún að breyt­ing­arn­ar hafi ekki verið rædd­ar sér­stak­lega við ung­mennaráð vegna viðkvæmni máls­ins. „Þegar breyt­ing­ar eru svona viðkvæm­ar, hvað varðar störf og hags­muni ein­stak­linga, þá er ekki endi­lega hægt að fara með það í hóp­inn og ræða sér­stak­lega,“ seg­ir Krist­ín.

Fé­lags­miðstöðvar í öll­um skól­um

Gagn­rýni um að skól­ar geti ekki komið í stað fé­lags­miðstöðva vís­ar hún á bug.

„Fé­lags­miðstöðvar sem miðlæg ein­ing hætta, en það verður í staðinn til fé­lags­miðstöð í hverj­um ein­asta skóla. Það er kannski líka eitt­hvað sem hef­ur ekk­ert mikið komið fram, að fé­lags­miðstöðvarn­ar eru í nær öll­um til­vik­um í skól­an­um. Breyt­ing­in er í grunn­inn sú að breyta skrif­stofuaðstöðu úr miðlægri skrif­stofu í starf í skóla,“ seg­ir hún.

Varðandi gagn­rýni um nei­kvæða reynslu Hafn­ar­fjarðar af sam­bæri­legu fyr­ir­komu­lagi seg­ir Krist­ín að horft hafi verið meðal ann­ars til reynslu er­lend­is.

„Við vor­um ekki ein­göngu að horfa til Hafn­ar­fjarðar. Við þekkt­um til þess skipu­lags. Við vor­um að horfa út frá okk­ar eig­in áskor­un­um og þörf­um hér,“ seg­ir hún.

Ung­menni taka þátt í þróun

Krist­ín bæt­ir við að sér­stak­lega verði haldið áfram með sér­hæfða starf­semi eins og hinseg­in fé­lags­miðstöð og starf fyr­ir eldri ung­menni.

„Það er í raun­inni ekki verið að hætta með neitt af því sem verið hef­ur,“ seg­ir hún og und­ir­strik­ar að ung­menn­um verði tryggð þátt­taka í þróun starfs­ins.

Krist­ín seg­ir ákvörðun­ina ekki vera sparnaðaraðgerð held­ur þvert á móti ætlað að auka þjón­ustu við börn og ung­menni. „Það er eng­in hagræðing­ar­hug­mynd í þessu. Við erum í raun­inni að auka við,“ seg­ir hún.

Hún staðfest­ir að breyt­ing­arn­ar taki gildi þann 1. sept­em­ber næst­kom­andi og verði metn­ar á kom­andi miss­er­um. „Að sjálf­sögðu mun­um við end­ur­meta þetta ef reynsl­an verður nei­kvæð,“ seg­ir Krist­ín að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert