Breytingar á gjaldskyldu bílastæða í miðborginni hafa haft gríðarleg áhrif á rekstur veitingamanna í borginni. Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir borgina hafa gengið of langt.
Þetta kemur fram í samtali Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, við veitingamennina Jakob Einar Jakobsson og Róbert Aron Magnússon í hlaðvarpinu Borgin.
Hildur sagði í þættinum eðlilegt að bílastæði í miðborg væru gjaldskyld en það væri þó mikilvægt að finna réttan jafnvægispunkt.
Þá sagði hún jafnframt borgina hafa gengið of langt á síðustu árum og fulla ástæðu til að yfirfara fyrirkomulag gjaldskyldunnar.
Árið 2023 var ákveðið að hækka bílastæðagjöld í miðborginni um 40%, lengja þann tíma sem gjaldskylda gildir og innleiða gjaldtöku á sunnudögum.
Þá hefur gjaldskyldusvæðið einnig verið stækkað verulega á undanförnum árum. Þessar breytingar hafa orðið til þess að tekjur Bílastæðasjóðs hafa vaxið um rúm 70% á kjörtímabilinu.
Heildartekjur sjóðsins, sem einkum koma frá bílastæðagjöldum og stöðubrotsgjöldum, námu tæpum 2,2 milljörðum króna árið 2024.
„Maður finnur að fólk setur það fyrir sig að það þurfi að finna stæði og það sé dýrt að leggja í miðborginni. Auðvitað á að vera ódýrara að leggja um kvöld og helgar. Við höfum reynt að impra á því við Reykjavíkurborg, og Bílastæðasjóð, að vera meira upplýsandi,“ sagði Róbert Aron.
Hildur kveðst ætla taka málið upp á vettvangi borgarinnar og leggja til að bílastæðin verði betur kynnt, til dæmis að fólk geti nálgast rauntímaupplýsingar á vefsíðu eða í appi um fjölda lausra bílastæða á ólíkum stöðum.
„Miðborgin þarf auðvitað að vera aðgengileg fyrir alla mögulega fararmáta, það er fjöldinn allur af stæðum í bílastæðahúsum í miðborginni en þau eru illa kynnt,“ sagði Hildur jafnframt.