Björn Óskarsson segist hafa lent á milli skips og bryggju eftir að honum var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og hefur stefnt íslenska ríkinu.
Björn starfaði hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í Brussel frá september 2023 til loka júlí 2024. Eftir heimkomu til Íslands í ágúst hóf hann störf hjá lögmannsstofu og sótti í september um fæðingarorlof vegna fæðingar dóttur sinnar í nóvember sama ár.
Umsókninni var hafnað núna í janúar á þeim forsendum að hann hefði ekki verið starfandi á íslenskum vinnumarkaði síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barnsins. Í synjun Fæðingarorlofssjóðs var vísað til þess að tímabil hans hjá ESA í Belgíu uppfyllti ekki skilyrði laganna, þar sem hann hafði ekki greitt tryggingagjöld þar í landi.
Samkvæmt túlkun sjóðsins væri greiðsla slíkra gjalda skilyrði fyrir því að starfsferill í öðru EES-ríki teldist til réttinda fyrir orlofsgreiðslum samkvæmt íslenskum lögum. Björn bendir hins vegar á að starfsmenn alþjóðastofnana, líkt og ESA, greiði ekki skatt í viðkomandi landi heldur tilheyri sérstöku tryggingakerfi stofnunarinnar.
Hann telur að þessi túlkun Fæðingarorlofssjóðs sé of þröng og ekki í samræmi við lögin.
„Hefði ég haldið áfram að vinna hjá ESA þá hefði ég fengið fæðingarorlof og var t.a.m. með atvinnuleysistryggingar þar. Ég fell á milli skips og bryggju þegar þeir líta svo á að það sé fortakslaust skilyrði fyrir greiðslum fæðingarorlofssjóðs að hafa greitt tryggingagjald í landinu sem ég var í, en starfsmenn Evrópusambandsins og EFTA eru undanþegnir greiðslu tryggingagjalds vegna þess að þeir tilheyra sérstöku velferðarkerfi,” tekur Björn fram í samtali við mbl.is.
Hann kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar í velferðarmálum sem staðfesti synjunina í maí 2025. Hann hefur í kjölfarið stefnt íslenska ríkinu og Fæðingarorlofssjóði og krefst þess að ákvörðuninni verði hnekkt og réttur hans til fæðingarorlofs viðurkenndur. Mál hans hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur og fer nú fram undirbúningur fyrir meðferð þess.
Réttur hans til fæðingarorlofs fellur úr gildi þegar barnið verður 24 mánaða. Stjórnsýslumeðferð málsins tók um átta mánuði og hefur verulegur hluti tímabilsins þegar runnið sitt skeið.
Hann bendir á að synjunin hafi haft áhrif á fjölskyldulíf þeirra hjóna, þar sem hann hafi m.a. neyðst til að taka launalaust leyfi. Þetta hafi takmarkað möguleika þeirra til að dvelja heima með barninu lengur en sjö og hálfan mánuð.
Björn segist vona að málið varpi ljósi á nauðsyn lagaskýringa sem tryggja að þeir sem starfa fyrir alþjóðastofnanir falli ekki á ósanngjarnan hátt úr réttindakerfinu.
„Ég sendi málsatvik á aðstoðarmann utanríkisráðherra en hef ekki fengið svar. Ég taldi þetta skipta máli vegna þess að ef að þessi niðurstaða fær að standa þá hefur þetta áhrif á alla sem kjósa að starfa fyrir alþjóðastofnun. Þetta hefur auðvitað mjög letjandi áhrif á það að fólk sæki sér vinnu í útlöndum ef það kýs að koma aftur heim,” segir Björn að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.