Tilkynningum til barnaverndar fjölgaði um 9,9 prósent á árinu 2024 miðað við árið á undan, en tilkynningar á árinu 2024 voru 16.751.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barna- og fjölskyldustofu um samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónustu á árunum 2022 til 2024.
Mest fjölgar tilkynningum vegna áhættuhegðunar barna, eða um 14,5 prósent. Undir þeim flokki fjölgar langmest tilkynningum um neyslu barna á vímuefnum eða öðrum efnum sem hafa skaðleg áhrif. Er fjölgunin um 60 prósent á milli áranna 2024 og 2023 og varðar bæði stúlkur og drengi.
Eru þessar niðurstöður í samræmi við það sem fram hefur komið í umfjöllun mbl.is um málefni barna með fjölþættan vanda og það úrræðaleysi sem ríkir í málaflokknum, meðal annars í viðtali við Elísu Ingólfsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur, í mars síðastliðnum.
Sagði hún að hópur barna sem glímir við alvarlegan fíkni- og hegðunarvanda hefði stækkað meira en hann hefði þurft að gera og vandi barnanna hefði þyngst, vegna skorts á viðeigandi meðferðarúrræðum á vegum Barna- og fjölskyldustofu síðustu ár, eitthvað sem hefði ekki þurft að gerast ef börnin hefðu verið gripin fyrr og unnið markvisst í vanda þeirra.
Tilkynningum til barnaverndar vegna afbrota, sjálfsskaða og neyslu barna og ungmenna hefði fjölgað til muna vegna þessa.
Í skýrslu Barna- og fjölskyldustofu kemur einnig fram að tilkynningum um að barn komi sér undan forsjá hafi fjölgað um rúmlega 30 prósent og varða þær tilkynningar oftar stúlkur en drengi.
Tilkynningum vegna afbrota barna fjölgaði einnig á milli ára, eða um 8 prósent.
Tilkynningum vegna þess að barn beitir ofbeldi fjölgaði um 21,9 prósent. Flestar slíkar tilkynningar, bæði vegna afbrota barna og barna sem beita ofbeldi, eru vegna drengja, eða 82,6 prósent.
Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 33,7 prósent af öllum tilkynningum til barnaverndar árið 2024 og er það hærra hlutfall en á árunum 2022 og 2023.
Flestar tilkynningar á árinu 2024 voru hins vegar vegna vanrækslu á börnum eða 40,7 prósent allra tilkynninga og er það aðeins lægra hlutfall en á árunum 2022 og 2023.
Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis gegn börnum á árinu 2024 var 24,8 prósent, og er það aðeins lægra hlutfall en árin á undan.
Flestar tilkynningar til barnaverndar bárust frá lögreglu, eða 39,7 prósent allra tilkynninga á árinu 2024, sem er heldur hærra hlutfall en árin tvö á undan. Tilkynningum frá skólum og heilbrigðiskerfinu hefur fjölgað síðustu ár og hélt áfram að fjölga á árinu 2024. Þá fjölgaði tilkynningum frá skólum um 9,2 prósent á milli ára og um 3,4 prósent frá heilbrigðiskerfinu. Mest var fjölgun tilkynninga frá nágrönnum eða um 24,7 prósent.