Gistinætur á hótelum í maí voru tæplega 431.000 á landsvísu. Fjölgaði þeim um 9,8% á milli ára en þær voru rúmlega 392.000 á sama tíma í fyrra.
Mesta aukningin á gistinóttum á milli ára var á Vesturlandi og á Vestfjörðum en þar fjölgaði þeim um 31,6% á milli ára. Auk þess var umtalsverð aukning á Suðurnesjum, eða 14,8%. Á höfuðborgarsvæðinu varð aukning upp á 8,9% en gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um rúmlega 17 þúsund og samanlagt um tæplega 22 þúsund í öðrum landshlutum.
Gistinætur erlendra ferðamanna voru tæplega 373.000, eða 87% af gistinóttum hótela og er það aukning upp á 9,6% frá því í fyrra. Stærstur hluti ferðamannanna voru bandarískir, eða tæpur þriðjungur.
Framboð hótelherbergja hefur aukist um 1,1% prósent á milli ára og jókst framboðið í öllum landshlutum nema á Austurlandi þar sem það dróst saman um 5,3%. Framboðið jókst mest á Norðurlandi en þar jókst það um 6%.