Skipulagsráði Akureyrarbæjar hefur borist beiðni frá Vegagerðinni þess efnis að hjörtun í rauðum umferðarljósum bæjarins verði fjarlægð.
Í rökstuðningi Vegagerðarinnar er því haldið fram að stofnuninni hafi borist ábendingar um að hjörtun ógni umferðaröryggi og að ljóst sé að hjartalögunin í ljósunum standist hvorki kröfur um umferðarmerki né umferðaröryggi.
Vísað er í reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra málinu til stuðnings, en þar segir í 42. gr. um almenn umferðarljós að þau skuli vera
ljósmerki með hringlaga ljósopum fyrir rautt, gult og grænt ljós.
Í 2. gr. viðauka III með reglugerðinni segir að ljósker skuli vera með ljósop sem er 200 mm að þvermáli og því ljóst að hjartlögun ljósanna stenst ekki lögboðnar kröfur.
Hjörtun hafa lengi verið meðal helstu sérkenna bæjarins og ljáð honum vinalega ásýnd. Hafa ljósin verið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn til bæjarins.
Í beiðninni er þetta viðurkennt en þar segir að oft megi sjá ferðamenn á miðeyjum fjölfarinna vegamóta taka myndir og sjálfur. Telur Vegagerðin þessu sömuleiðis fylgja hætta, en í beiðninni er bent á aðstæður geti skapast þar sem t.d. fólki skrikar fótur og lendir fyrir bíl sökum þessa.
Þá eru hjartalöguðu ljósin einnig talin geta truflað ökumenn við akstur.