Landsréttur hefur dæmt Ásgeir Þór Önnuson í sex ára fangelsi fyrir skotárás sem átti sér stað á heimili í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld 2023.
Hann hlaut fimm ára dóm í héraði í fyrra en Landsréttur hefur þyngt dóminn um eitt ár.
Héraðssaksóknari ákærði Ásgeir og tvo aðra, þá Breka Þór Frímannsson og Hilmi Gauta Bjarnason, í tengslum við skotárás á heimili fólks að kvöldi 24. desember.
Ásgeiri var gefin að sök tilraun til manndráps, húsbrot, hættubrot og vopnalagabrot með því að hafa umrætt sinn ásamt Breka, ruðst grímuklæddur og í heimildarleysi inn á heimilið, þar sem fjórir brotaþolar voru staddir, og skotið án viðvörunar samtals sex skotum úr skammbyssu í átt að tveimur þeirra.
Breka var gefin að sök hlutdeild í brotum Ásgeirs með því að hafa liðsinnt honum við undirbúning og framkvæmd brotsins með nánar tilgreindum hætti.
Hilmi Gauta var gefin að sök hlutdeild í broti Ásgeirs með því að hafa ekið honum og Breka umrætt sinn gegn greiðslu.
Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að fallist væri á með héraðsdómi að það hefði verið hending ein að skotin lentu ekki í fólkinu, sem þá voru inni í barnaherbergi, og einnig að Ásgeir hafi hlotið að vera ljóst að það sé lífshættulegt að skjóta sex skotum úr skammbyssu í átt að fólki af stuttu færi, án neinnar vissu um hvar skotin lendi, og því hafi Ásgeir hlotið að gera sér grein fyrir því að bani gæti hlotist af háttsemi hans.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu Ásgeirs fyrir tilraun til manndráps gagnvart brotaþolunum og hættubrot gagnvart tveimur öðrum brotaþolum sem og vopnalagabrot. Var refsing hans ákveðin fangelsi í sex ár, sem fyrr segir.
Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ekki yrði fullyrt að ásetningur Breka og Hilmis Gauta hefði staðið til að bana tveimur brotaþolum og yrðu þeir því ekki sakfelldir fyrir hlutdeild í tilraun til manndráps.
Þeir voru aftur á móti sakfelldir fyrir hlutdeild í hættubrotinu og jafnframt sakfelldir fyrir hlutdeild í vopnalagabroti Ásgeirs.
Niðurstaða héraðsdóms um refsingu Breka og Hilmis Gauta var staðfest og Breka gert að sæta fangelsi í 30 mánuði og Hilmi Gauta gert að sæta skilorðsbundnu fangelsi í eitt ár.
Þeim ákæruliðum er vörðuðu húsbrot var vísað frá héraðsdómi.
Staðfest voru ákvæði héraðsdóms um upptöku á skammbyssu.
Loks var Ásgeiri og Breka gert að greiða brotaþolum miskabætur, eða samtals 5,5 milljónir kr.