Veruleg hætta á að vitinn hrynji

Vitinn stendur tæpt.
Vitinn stendur tæpt. Ljósmynd/Vegagerðin/Atli Örn Sævarsson

Hrunið hef­ur úr und­ir­stöðum vit­ans á Gjög­ur­tá, nyrst við aust­an­verðan Eyja­fjörð. Tölu­verð hætta er á því að vit­inn falli fram af klett­un­um og ofan í sjó­inn. 

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Vega­gerðinni. 

Vega­gerðin seg­ir enga hættu vera til staðar fyr­ir sjófar­end­ur að svo stöddu, að öðru leyti en því að hætta get­ur skap­ast ef vit­inn fell­ur í sjó. 

Ástand vit­ans kom í ljós í ár­legri þjón­ustu­ferð Vega­gerðar­inn­ar þar sem siglt er hring­inn í kring­um landið og sinnt viðhaldi á þeim vit­um sem aðeins er hægt að kom­ast að frá sjó.

Vega­gerðin hef­ur fylgst með ástand­inu á svæðinu und­an­far­in ár þar sem jarðveg­ur hef­ur verið á hreyf­ingu en jarðskjálfta­virkni er vel þekkt á þess­um slóðum og seg­ir Vega­gerðin það vera lík­lega skýr­ingu á því að hrunið hafi úr und­ir­stöðum vit­ans. 

Vit­inn stend­ur í 28 metra hæð á klettanös und­ir Gjög­ur­falli. Ljósa­hús hans er 3,2 metra hátt og var reist árið 1970, en viti sem var áður á sama stað hafði skemmst í gasspreng­ingu árið 1969.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert