Hrunið hefur úr undirstöðum vitans á Gjögurtá, nyrst við austanverðan Eyjafjörð. Töluverð hætta er á því að vitinn falli fram af klettunum og ofan í sjóinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Vegagerðin segir enga hættu vera til staðar fyrir sjófarendur að svo stöddu, að öðru leyti en því að hætta getur skapast ef vitinn fellur í sjó.
Ástand vitans kom í ljós í árlegri þjónustuferð Vegagerðarinnar þar sem siglt er hringinn í kringum landið og sinnt viðhaldi á þeim vitum sem aðeins er hægt að komast að frá sjó.
Vegagerðin hefur fylgst með ástandinu á svæðinu undanfarin ár þar sem jarðvegur hefur verið á hreyfingu en jarðskjálftavirkni er vel þekkt á þessum slóðum og segir Vegagerðin það vera líklega skýringu á því að hrunið hafi úr undirstöðum vitans.
Vitinn stendur í 28 metra hæð á klettanös undir Gjögurfalli. Ljósahús hans er 3,2 metra hátt og var reist árið 1970, en viti sem var áður á sama stað hafði skemmst í gassprengingu árið 1969.