Hildur Maja Guðmundsdóttir, fimleikakona hjá Gerplu, æfir nú í 34 klukkustundir á viku, en hún er nýlega komin heim frá Úsbekistan þar sem hún vann fyrst íslenskra kvenna til verðlauna á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum.
„Á veturna erum við að æfa fimm sinnum í viku í fjóra tíma en ég mæti alltaf fyrr til að gera styrktaræfingar og eitthvað svoleiðis svo ég er oft í salnum í sex til sjö tíma,“ segir Hildur.
Í sumar er enginn afsláttur veittur af æfingunum og æfir hún tvisvar á dag fjóra daga vikunnar. Hina tvo æfingadagana æfir hún bara einu sinni en þó í fimm klukkustundir í senn. Það samsvarar þrjátíu og fjórum klukkustundum.
Hildur kláraði nýlega stúdentspróf úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja en hún býr á Selfossi. Lesendur velta því kannski fyrir sér hvernig það megi vera en hún keyrir alla daga frá Selfossi í Kópavog þar sem æfingaaðstaða Gerplu er staðsett. Á Selfossi er aðeins aðstaða fyrir hópfimleika en ekki áhaldafimleika.
„Ég tók alltaf strætó áður en ég fékk bílpróf og þá tók þetta svona einn og hálfan tíma, en það er mun þægilegra núna að vera með bílpróf. Núna tekur þetta svona 45 mínútur, en það fer eftir umferð.“
Aðspurð hvernig sé að keyra þessa leið marga daga í viku segir hún það hluta af sinni rútínu.
„Ég er bara vön því, þetta er bara hluti af minni rútínu, gæðastund fyrir mig.“
Hildur komst í úrslit á tveimur áhöldum á heimsbikarmótinu sem haldið var í Úsbekistan um helgina, gólfi og tvíslá. Hún tryggði sér silfrið á gólfinu og skráði sig þar með í sögubækurnar.
„Það kom mér mjög á óvart að ég hafi komist í úrslit á tvíslá, það er ekki mitt sterkasta áhald,“ segir Hildur.
Hún segir það samt hafa verið gaman að keppa í úrslitunum á tvíslá en þar keppti meðal annars ólympíumeistarinn á tvíslá, Kaylia Nemour.
„Þetta var svolítið langt ferðalag og það var rosalega heitt, það voru fjörutíu gráður alla dagana og engin loftkæling í fimleikasalnum þannig að ég var bara með litla viftu sem bjargaði mér í salnum, ég veit ekki hvað ég hefði gert ef ég hefði ekki verið með þessa viftu. Það var samt loftkæling á hótelinu.“
Þegar hún keppti í úrslitunum fór rafmagnið af vegna hita.
„Þegar tvær voru búnar að gera æfingar á gólfinu þá sló rafmagnið út í hálftíma.“
Í Gerplu æfa tíu í meistaraflokknum í áhaldafimleikum og segir Hildur þær ná vel saman þrátt fyrir mikla aldursbreidd, en tíu ár eru á milli þeirra elstu og yngstu.