Innviðaráðherra ræddi við forstjórann

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra.
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra. mbl.is/Ólafur Árdal

Innviðaráðherra gagn­rýn­ir ákvörðun Arctic Fish um að flytja fóður­stöð frá Þing­eyri á Ísa­fjörð og seg­ir hana ekki í takt við sam­fé­lags­lega ábyrgð fyr­ir­tæk­is­ins. Starfs­menn þurfi nú að aka um 100 kíló­metra dag­lega til vinnu. Hann ræddi við for­stjóra Arctic Fish í gær.

Þetta kem­ur fram í sam­tali Eyj­ólfs Ármanns­son­ar innviðaráðherra við mbl.is að rík­is­stjórn­ar­fundi lokn­um.

Arctic Fish til­kynnti fyr­ir helgi að fóður­stöðin á Þing­eyri yrði flutt á Ísa­fjörð, þar sem fyr­ir­tækið er þegar með starf­semi. Starfs­mönn­um sem störfuðu á Þing­eyri hef­ur verið boðið að halda áfram störf­um á Ísaf­irði og hef­ur fyr­ir­tækið jafn­framt boðist til að greiða akst­urs­kostnað vegna vinnu­ferða, en akst­ur­inn tek­ur um 40 mín­út­ur í hvora átt.

Fyr­ir­tækið þurfi að huga að sam­fé­lags­legri ábyrgð

Eyj­ólf­ur seg­ir að fyr­ir­tækið þurfi að huga að sam­fé­lags­legri ábyrgð. Um sé að ræða hundrað kíló­metra akst­ur auka­lega fyr­ir fólk sem vilji áfram vinna í Dýraf­irði og að ekki sé um hagræðingu í rekstri að ræða.

„Mér skilst að það sé verið að bjóða fólk­inu að fara í vinnu­tíma sín­um, ég held að það sé kostnaðar­auki. Ég ætla ekki að skipta mér af innri starf­semi þessa fyr­ir­tæk­is. Ég bara vísa til sam­fé­lags­ábyrgðar fyr­ir­tæk­is­ins og skrifaði grein um fisk­eldi og sam­fé­lags­ábyrgð,“ seg­ir hann.

En ef þetta er nauðsyn­legt fyr­ir rekst­ur­inn, er þá ekki meiri sam­fé­lags­ábyrgð að tryggja góðan rekst­ur hjá fyr­ir­tæk­inu til þess ein­mitt að halda störf­un­um?

„Þú verður að spyrja fyr­ir­tækið hvort þetta tryggi góðan rekst­ur, hvort þetta sé hagræðing. Það eru alla­vega ekki þær upp­lýs­ing­ar sem hafa verið í fjöl­miðlum.“

Ráðherra ætti að líta í eig­in barm

Daní­el Jak­obs­son, for­stjóri Arctic Fish, sagði við Vísi á dög­un­um að fyr­ir­tækið hefði á síðasta ári greitt 800 millj­ón­ir króna í sér­staka fisk­eld­is­skatta og hvatti Eyj­ólf til að líta sér nær þar sem þeir fjár­mun­ir væru ekki að reyna í Dýra­fjörð.

„Sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra væri í lófa lagið að breyta þeim leik­regl­um og tryggja það að þeir sem eru að búa til, eða þau sam­fé­lög sem búa til þetta eld­is­gjald, fái það þá til baka til sín, en það renni ekki allt í hít­ina í 101,“ sagði Daní­el en tók fram að til skamms tíma væri ekki verið að spara fjár­muni með því að færa fóður­stöðina.

Eyj­ólf­ur sagði við Bylgj­una um helg­ina að hann ætlaði að gera allt sem hann gæti til að stöðva þessa fram­kvæmd. Eyj­ólf­ur er odd­viti Flokks fólks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Rætt við for­stjóra og skrifað grein

Hvað hef­ur þú gert til að fá þá til að draga ákvörðun­ina til baka?

„Ég átti sam­tal við for­stjór­ann í gær til dæm­is og ég skrifaði grein um þetta í fjöl­miðla í gær,“ seg­ir Eyj­ólf­ur.

Hvernig finnst þér viðmót for­stjór­ans vera við áhyggj­um þínum og bæj­ar­búa?

„Ég átti mjög gott sam­tal við for­stjóra fyr­ir­tæk­is­ins í gær. Rædd­um þetta mál lít­il­lega og önn­ur mál líka,“ seg­ir Eyj­ólf­ur.

Talað fyr­ir fisk­eldi til að hjálpa brot­hætt­um byggðum

Spurður hvort það sé ekki já­kvætt að þótt störf­in fær­ist á milli þorpa þá séu þau áfram inn­an sama sveit­ar­fé­lags seg­ir Eyj­ólf­ur að hann hafi talað fyr­ir fisk­eldi í kosn­ing­um til að hjálpa brot­hætt­um byggðum.

Eyj­ólf­ur ít­rek­ar að fisk­eld­is­fyr­ir­tæki beri ábyrgð gagn­vart íbú­um í brot­hætt­um byggðum. Hann seg­ir að hann hafi í kosn­inga­bar­áttu talað fyr­ir fisk­eldi til að styrkja at­vinnu­líf í öll­um fjörðum á Vest­fjörðum.

„Ég studdi fisk­eldi með vís­an til þess að það myndi auka verðmæta­sköp­un í fjörðum á Vest­fjörðum og ætti að hjálpa þeim fjörðum þar sem eru brot­hætt­ar byggðir. Það er gríðarlega mik­il­vægt að störf­in – sem tengj­ast þess­ari verðmæta­sköp­un – verði í fjörðunum.“

„Þetta er ótrú­lega sorg­legt mál“

Íbúa­fund­ur fór fram í gær á Dýraf­irði sem var fjöl­sótt­ur af íbú­um, for­svars­mönn­um Arctic Fish, bæj­ar­yf­ir­völd­um og ráðherra.

„Þetta var gott sam­tal sem við átt­um þarna,“ seg­ir Eyj­ólf­ur en tek­ur fram að hljóðið hafi verið nei­kvætt í bæj­ar­bú­um.

„Þetta er ótrú­lega sorg­legt mál, að í hjarta fisk­eld­is á Vest­fjörðum sé brot­hætt byggð. Það er senni­lega verið að fara að loka einu versl­un­inni í þorp­inu [Þing­eyri].“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert