Innviðaráðherra gagnrýnir ákvörðun Arctic Fish um að flytja fóðurstöð frá Þingeyri á Ísafjörð og segir hana ekki í takt við samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins. Starfsmenn þurfi nú að aka um 100 kílómetra daglega til vinnu. Hann ræddi við forstjóra Arctic Fish í gær.
Þetta kemur fram í samtali Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
Arctic Fish tilkynnti fyrir helgi að fóðurstöðin á Þingeyri yrði flutt á Ísafjörð, þar sem fyrirtækið er þegar með starfsemi. Starfsmönnum sem störfuðu á Þingeyri hefur verið boðið að halda áfram störfum á Ísafirði og hefur fyrirtækið jafnframt boðist til að greiða aksturskostnað vegna vinnuferða, en aksturinn tekur um 40 mínútur í hvora átt.
Eyjólfur segir að fyrirtækið þurfi að huga að samfélagslegri ábyrgð. Um sé að ræða hundrað kílómetra akstur aukalega fyrir fólk sem vilji áfram vinna í Dýrafirði og að ekki sé um hagræðingu í rekstri að ræða.
„Mér skilst að það sé verið að bjóða fólkinu að fara í vinnutíma sínum, ég held að það sé kostnaðarauki. Ég ætla ekki að skipta mér af innri starfsemi þessa fyrirtækis. Ég bara vísa til samfélagsábyrgðar fyrirtækisins og skrifaði grein um fiskeldi og samfélagsábyrgð,“ segir hann.
En ef þetta er nauðsynlegt fyrir reksturinn, er þá ekki meiri samfélagsábyrgð að tryggja góðan rekstur hjá fyrirtækinu til þess einmitt að halda störfunum?
„Þú verður að spyrja fyrirtækið hvort þetta tryggi góðan rekstur, hvort þetta sé hagræðing. Það eru allavega ekki þær upplýsingar sem hafa verið í fjölmiðlum.“
Daníel Jakobsson, forstjóri Arctic Fish, sagði við Vísi á dögunum að fyrirtækið hefði á síðasta ári greitt 800 milljónir króna í sérstaka fiskeldisskatta og hvatti Eyjólf til að líta sér nær þar sem þeir fjármunir væru ekki að reyna í Dýrafjörð.
„Sveitarstjórnarráðherra væri í lófa lagið að breyta þeim leikreglum og tryggja það að þeir sem eru að búa til, eða þau samfélög sem búa til þetta eldisgjald, fái það þá til baka til sín, en það renni ekki allt í hítina í 101,“ sagði Daníel en tók fram að til skamms tíma væri ekki verið að spara fjármuni með því að færa fóðurstöðina.
Eyjólfur sagði við Bylgjuna um helgina að hann ætlaði að gera allt sem hann gæti til að stöðva þessa framkvæmd. Eyjólfur er oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.
Hvað hefur þú gert til að fá þá til að draga ákvörðunina til baka?
„Ég átti samtal við forstjórann í gær til dæmis og ég skrifaði grein um þetta í fjölmiðla í gær,“ segir Eyjólfur.
Hvernig finnst þér viðmót forstjórans vera við áhyggjum þínum og bæjarbúa?
„Ég átti mjög gott samtal við forstjóra fyrirtækisins í gær. Ræddum þetta mál lítillega og önnur mál líka,“ segir Eyjólfur.
Spurður hvort það sé ekki jákvætt að þótt störfin færist á milli þorpa þá séu þau áfram innan sama sveitarfélags segir Eyjólfur að hann hafi talað fyrir fiskeldi í kosningum til að hjálpa brothættum byggðum.
Eyjólfur ítrekar að fiskeldisfyrirtæki beri ábyrgð gagnvart íbúum í brothættum byggðum. Hann segir að hann hafi í kosningabaráttu talað fyrir fiskeldi til að styrkja atvinnulíf í öllum fjörðum á Vestfjörðum.
„Ég studdi fiskeldi með vísan til þess að það myndi auka verðmætasköpun í fjörðum á Vestfjörðum og ætti að hjálpa þeim fjörðum þar sem eru brothættar byggðir. Það er gríðarlega mikilvægt að störfin – sem tengjast þessari verðmætasköpun – verði í fjörðunum.“
Íbúafundur fór fram í gær á Dýrafirði sem var fjölsóttur af íbúum, forsvarsmönnum Arctic Fish, bæjaryfirvöldum og ráðherra.
„Þetta var gott samtal sem við áttum þarna,“ segir Eyjólfur en tekur fram að hljóðið hafi verið neikvætt í bæjarbúum.
„Þetta er ótrúlega sorglegt mál, að í hjarta fiskeldis á Vestfjörðum sé brothætt byggð. Það er sennilega verið að fara að loka einu versluninni í þorpinu [Þingeyri].“