Samkeppniseftirlitið telur að framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda sé til þess fallið að skaða samkeppni á markaði endurskoðenda og stríði þannig gegn markmiði samkeppnislaga.
Samkeppniseftirlitið telur atvinnuvegaráðuneytið þurfa að endurskoða framkvæmd gæðaeftirlitsins.
Þetta kemur fram í áliti Samkeppniseftirlitsins um framkvæmd gæðaeftirlitsins sem birt var í seinustu viku.
Mælt er fyrir um gæðaeftirlitið í lögum en það felst í því að starfandi endurskoðendum er falið af endurskoðendaráði að framkvæma eftirlit með störfum annarra endurskoðenda.
Endurskoðunarfyrirtæki, sem nýtur nafnleyndar í álitinu, kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vegna gæðaeftirlitsins. Í kvörtuninni kemur fram að endurskoðendum sem sjái um eftirlitið sé veittur aðgangur að viðkvæmum viðskiptalegum upplýsingum, jafnvel hjá beinum keppinautum sínum.
Endurskoðendafyrirtækið sem kvartaði taldi fyrirkomulagið fela það í sér að gæðaeftirlitsmaður gæti lagt stein í götu keppinauta sinna.
Samkeppniseftirlitið telur fyrirkomulagið bera þess merki að því hafi verið komið á til bráðabirgða þar til varanlegu úrræði yrði komið á.
Samkeppniseftirlitið segir að útvistun gæðaeftirlitsins skapi hættu á því að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar berist á milli keppinauta og með því sé samkeppni raskað með alvarlegum hætti.
Atvinnuvegaráðuneytið er hvatt til þess í álitinu að endurskoða framkvæmd gæðaeftirlitsins og gæta þess við lagasetningu að skaða ekki samkeppni.