Ekki hefur verið ákveðið hvenær skipulagsráð Akureyrarbæjar mun taka fyrir erindi Vegagerðarinnar um að hjörtun í rauðu götuljósum bæjarins verði fjarlægð.
Að sögn Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra verður fyrst tekið samtal við Vegagerðina vegna málsins.
„Ég geri ekki ráð fyrir að við séum tilbúin til að verða við þessari kröfu Vegagerðarinnar,” segir Ásthildur, spurð út í stöðu málsins.
Hún furðar sig á því að Vegagerðin skuli ekki hafa rætt við bæjaryfirvöld áður en hún óskaði eftir því að hjörtun yrðu fjarlægð.
„Það er allt í lagi að ræða þetta við okkur og óska eftir fundi í staðinn fyrir að það sé sent bréf þar sem þess er krafist að þetta verði tekið niður,” segir Ásthildur.
Spurð hvað bæjarbúum finnist um málið segir hún að þeim þyki hjörtun vera eitt af kennileitum bæjarins. „Þeim þykir vænt um hjörtun sín og finnst þetta fráleit krafa af hálfu Vegagerðarinnar.”
Hún kannast ekki við að kvörtun hafi komið frá neinum bæjarbúum vegna hjartanna og nefnir einnig að ef Vegagerðin hafi fengið slíkar kvartanir hafi þeim ekki verið almennilega komið til skila.