Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi og formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, gerir alvarlegar athugasemdir við deiliskipulagstillögu um byggingu fjölbýlishúss á bensínstöðvarlóðinni við Birkimel 1. Þetta kemur fram í skipulagsgátt.
Eins og fram hefur komið í fréttum stendur til að byggja þar fjölbýlishús með 42 íbúðum en aðeins sex bílastæðum, þar af þremur almennum.
Í greinargerð sinni bendir Júlíus á að nýtingarhlutfall bílastæða á skipulagsreitnum sé mjög hátt.
„Aðgangur í bílakjallara er með bílalyftu. Slíkur búnaður er vel þekktur en er mjög tímafrekur og seinvirkur. Bílakjallarar með slíkan aðgang hafa reynst illa og eru illa nýttir. Íbúum á Birkimel 1 verður bent á að nota bílastæði nágranna sinna.“
Hann segir nærliggjandi íbúðahverfi hafa verið skipulögð löngu áður en bílaeign varð almenn.
„Gjörsamlega óábyrgt er að ætla að beina væntanlegum íbúum á Birkimel 1 eitthvað inn í nærliggjandi íbúðahverfi til að leggja bílum sínum þar. Það er ekki bara vegna bílastæða sem þegar eru fullnýtt heldur mun þetta auka akstur um hverfin og valda hættu á slysum.“
Júlíus bendir á að það sé algjörlega óásættanlegt að beina slíkri umferð inn í friðsæl íbúðahverfi og eini tilgangurinn virðist vera að auka hagnaðarvon lóðarhafa á Birkimel.
„Í fyrirhugaðri byggingu munu búa um 100 manns að meðtöldum börnum. Engar mótvægisaðgerðir hafa verið kynntar íbúum hverfisins vegna þessarar íbúafjölgunar, né heldur vegna 113 stúdentaíbúða á Hótel Sögu sem teknar verða í notkun næsta haust. Nærliggjandi leikskólar og grunnskólar eru þegar fullnýttir.“
Júlíus tekur fram að reglur sem Reykjavíkurborg hefur sjálf sett sér standi til þess að við ákvörðun um umfang, gerð og tímasetningu íbúðarþéttingar verði horft sérstaklega til stöðu grunn- og leikskóla í hverfunum, en það hafi ekki verið gert.
„Bent hefur verið á að Reykjavíkurborg geti gengið skaðlaus frá umræddu samkomulagi við Skeljung hf. Samkomulagið fellur einfaldlega niður ef ekki er gengið að kröfum Skeljungs hf. um nýtingu. Lóðarleigusamningur bensínstöðvar fellur niður 1. janúar 2045 eða eftir tæplega 20 ár. Það er örskotsstund í sögu borgar.“
Í greinargerð með tillögu að deiliskipulagi stendur að hugað sé sérstaklega að gæðum húsnæðis og nærumhverfis. Þar stendur einnig að verið sé að styrkja nærumhverfið og samfélagið á miðsvæðinu.
Júlíus segir að þetta séu innantómir sölufrasar og öfugmæli.
„Við sem búum í nágrenni við Birkimel þekkjum okkar nærumhverfi og samfélagið prýðilega og getum fullyrt að það þarfnast ekki styrkingar og síst af öllu yfirgangs og vanvirðingar.“
Birkimelur 1
Á grundvelli samkomulags Reykjavíkurborgar og olíufélaganna hyggst Skeljungur hf. byggja 42 íbúðir á bensínstöðvarlóðinni við Birkimel.
Engar mótvægisaðgerðir hafa verið kynntar íbúum hverfisins vegna þessarar íbúafjölgunar né heldur vegna 113 stúdentaíbúða á Hótel Sögu sem teknar verða í notkun næsta haust.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.