Það hefur verið fyrirsjáanlegt í langan tíma að húsnæðismál Landspítalans muni stefna í þrot. Uppbyggingin mun þurfa að standa yfir til lengri tíma, jafnvel eftir að nýi spítalinn er tekinn í notkun, vegna mikilla samfélagslegra breytinga síðustu árin.
Þetta er meðal þess sem Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans segir í samtali við mbl.is, en í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar var sjónum meðal annars beint að miklum töfum á uppbyggingu nýs Landspítala.
„Við erum með mjög ófullkomið húsnæði og ófullnægjandi húsnæði verð ég að segja fyrir göngu- og dagdeildarþjónustu. Það þarf að horfa til þess.“
Spurður hvers vegna bygging nýs Landspítala hefur tekið eins langan tíma og hún hefur gert segir Runólfur hægagang hafa verið í uppbyggingunni allt frá því að ákvörðun var tekin um að byggja nýjan Landspítala. Síðan hann tók við forstjórastarfinu hafi uppbyggingin þó gengið mjög vel fyrir sig, „tafirnar urðu áður“.
Greint hefur verið frá því að framkvæmdir hófust fyrir sex árum og að gert hafi verið ráð fyrir að nýr meðferðarkjarni yrði tekinn í notkun árið 2023. Í desember hafi svo verið gert ráð fyrir að framkvæmdum lyki fyrir lok árs 2028 og að líða myndu 1,5‒2 ár þar til starfsemin yrði komin í fulla virkni, um árin 2029‒2030.
„Það hafa orðið tafir en þess utan þá tók allt of langan tíma að koma þessari uppbyggingu af stað. Það hefur verið fyrirsjáanlegt í langan tíma að við stefndum í þrot með húsnæði á spítalanum,“ segir Runólfur.
Spurður hvort spítalinn sé strax úr sér vaxinn miðað við fólksfjölgun á tímanum sem liðinn er síðan hann hefði átt að opna svarar Runólfur:
„Þessi uppbygging, eins og ég sé hana, þarf að standa yfir í langan tíma. Meðferðarkjarninn og rannsóknarhúsið sem við erum að tala um, þau mannvirki sem verða tekin í notkun þá kannski 2029, það tekur tíma að koma þeim í notkun og við þurfum miklu meira húsnæði en það.
Við erum með mjög ófullkomið húsnæði og ófullnægjandi húsnæði verð ég að segja fyrir göngu- og dagdeildarþjónustu. Það þarf að horfa til þess.“
Þá bætir hann við að nýbygging fyrir geðheilbrigðisþjónustu hafi einnig verið í umræðunni og að það þurfi fleiri legurými.
„En það er alveg rétt að ofan á allt annað hafa verið miklar samfélagslegar breytingar síðustu 5, 6, 7, ár þar sem fólki hefur fjölgað mjög mikið, og eftirspurn eftir þjónustu spítalans aukist í samræmi við það.
Þannig að það er alveg rétt að við þurfum að horfa lengra fram á veginn og tryggja nægt húsnæði til að geta veitt þjónustu í þeim gæðaflokki sem við sættum okkur við hér sem samfélag.“