Uppbygging þurfi að standa yfir í langan tíma

Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans ræddi við mbl.is um nýja skýrslu …
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans ræddi við mbl.is um nýja skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar um starf­semi Land­spít­al­ans. Samsett mynd/mbl.is/Arnþór/Eyþór

Það hef­ur verið fyr­ir­sjá­an­legt í lang­an tíma að hús­næðismál Land­spít­al­ans muni stefna í þrot. Upp­bygg­ing­in mun þurfa að standa yfir til lengri tíma, jafn­vel eft­ir að nýi spít­al­inn er tek­inn í notk­un, vegna mik­illa sam­fé­lags­legra breyt­inga síðustu árin.

Þetta er meðal þess sem Run­ólf­ur Páls­son for­stjóri Land­spít­al­ans seg­ir í sam­tali við mbl.is, en í nýrri skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar var sjón­um meðal ann­ars beint að mikl­um töf­um á upp­bygg­ingu nýs Land­spít­ala.

„Við erum með mjög ófull­komið hús­næði og ófull­nægj­andi hús­næði verð ég að segja fyr­ir göngu- og dag­deild­arþjón­ustu. Það þarf að horfa til þess.“

„Tók allt of lang­an tíma að koma þess­ari upp­bygg­ingu af stað“

Spurður hvers vegna bygg­ing nýs Land­spít­ala hef­ur tekið eins lang­an tíma og hún hef­ur gert seg­ir Run­ólf­ur hæga­gang hafa verið í upp­bygg­ing­unni allt frá því að ákvörðun var tek­in um að byggja nýj­an Land­spít­ala. Síðan hann tók við for­stjóra­starf­inu hafi upp­bygg­ing­in þó gengið mjög vel fyr­ir sig, „taf­irn­ar urðu áður“.

Greint hef­ur verið frá því að fram­kvæmd­ir hóf­ust fyr­ir sex árum og að gert hafi verið ráð fyr­ir að nýr meðferðar­kjarn­i yrði tek­inn í notk­un árið 2023. Í des­em­ber hafi svo verið gert ráð fyr­ir að fram­kvæmd­um lyki fyr­ir lok árs 2028 og að líða myndu 1,5‒2 ár þar til starf­sem­in yrði kom­in í fulla virkni, um árin 2029‒2030.

„Það hafa orðið taf­ir en þess utan þá tók allt of lang­an tíma að koma þess­ari upp­bygg­ingu af stað. Það hef­ur verið fyr­ir­sjá­an­legt í lang­an tíma að við stefnd­um í þrot með hús­næði á spít­al­an­um,“ seg­ir Run­ólf­ur.

„Þjón­ustu í þeim gæðaflokki sem við sætt­um okk­ur við“

Spurður hvort spít­al­inn sé strax úr sér vax­inn miðað við fólks­fjölg­un á tím­an­um sem liðinn er síðan hann hefði átt að opna svar­ar Run­ólf­ur:

„Þessi upp­bygg­ing, eins og ég sé hana, þarf að standa yfir í lang­an tíma. Meðferðar­kjarn­inn og rann­sókn­ar­húsið sem við erum að tala um, þau mann­virki sem verða tek­in í notk­un þá kannski 2029, það tek­ur tíma að koma þeim í notk­un og við þurf­um miklu meira hús­næði en það.

Við erum með mjög ófull­komið hús­næði og ófull­nægj­andi hús­næði verð ég að segja fyr­ir göngu- og dag­deild­arþjón­ustu. Það þarf að horfa til þess.“

Þá bæt­ir hann við að ný­bygg­ing fyr­ir geðheil­brigðisþjón­ustu hafi einnig verið í umræðunni og að það þurfi fleiri legu­rými.

„En það er al­veg rétt að ofan á allt annað hafa verið mikl­ar sam­fé­lags­leg­ar breyt­ing­ar síðustu 5, 6, 7, ár þar sem fólki hef­ur fjölgað mjög mikið, og eft­ir­spurn eft­ir þjón­ustu spít­al­ans auk­ist í sam­ræmi við það.

Þannig að það er al­veg rétt að við þurf­um að horfa lengra fram á veg­inn og tryggja nægt hús­næði til að geta veitt þjón­ustu í þeim gæðaflokki sem við sætt­um okk­ur við hér sem sam­fé­lag.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert