„Sala á nýju íbúðunum í Vesturvin er helsta verkefnið mitt um þessar mundir, sem er gefandi og skemmtilegt, þar sem gæði og hönnun eru í fyrirrúmi í íbúðunum. Þetta eru glæsilegri íbúðir en við höfum áður séð og því einstakt að vera þátttakandi í slíku verkefni. Eins er mikið af nýjum eignum og byggingum að koma í sölu hjá okkur þessa dagana, enda hefur verið mikil uppbygging á höfuðborgarsvæðinu og spennandi tímar framundan,“ segir Móeiður Svala Magnúsdóttir, löggiltur fasteignasali á fasteignasölunni Mikluborg.
„Ég er mjög mikill fagurkeri og brenn fyrir flestu því sem tengist fallegum fasteignum, hönnun og tísku. Það skiptir mig miklu máli að vita stefnur og strauma á fasteignamarkaðnum og í innanhússhönnun, ekki síst til að geta veitt viðskiptavinum mínum persónulegar og sérsniðnar ráðleggingar.“
Hvaðan kemur áhuginn á fasteignum?
„Satt best að segja er áhugi minn á fasteignum kominn frá ástríðunni á hönnun og þeirri hugmyndafræði að rými hafi áhrif á líðan okkar. Mér finnst ótrúlega spennandi að sjá hvernig hægt er að skapa heimili sem endurspeglar persónuleika og lífsstíl þeirra sem þar búa,“ segir Móeiður og bætir við að það sé afar margt sem tengist þessum áhuga hennar á fasteignum. „Þessi heimur hefur heillað mig frá því ég man fyrst eftir mér," segir Móeiður.
Starfsumhverfið hennar er allt í senn spennandi, skemmtilegt og fjölbreytt. „Það að fá að vinna með frábæru fólki daglega er algjör lottóvinningur og einn helsti kosturinn við vinnuna,“ segir hún og bætir við að fasteignamarkaðurinn sé lifandi nú sem áður og krefjandi.
„Viðskiptavinir okkar eru á öllum aldri, og maður tengist þess vegna fólki á mismunandi lífsskeiðum. Sumir eru að kaupa sína fyrstu íbúð á meðan aðrir eru að minnka við sig og allt þar á milli. Ég nýt þess að tengjast fólki á mismunandi lífsskeiðum. Það er einstök upplifun að hjálpa fólki að finna draumaheimilið sitt.“
Móeiður leggur mikla áherslu á smáatriðin í lífinu. „Það á bæði við um vinnuna og einkalífið. Hvort sem það er að velja réttu lýsinguna í íbúðina eða setja saman eitthvað heildarútlit, þá trúi ég því að falleg hönnun sé lykillinn að vellíðan. Svona eins og þegar ég kom fyrst inn í íbúð í Vesturvin, ég gat ekki hætt að hugsa um hvernig gluggarnir ramma inn útsýnið eins og málverk. Ég hugsaði strax: Þetta er heimili sem fólk verður ástfangið af!“
Hvað er í tísku núna í nýjum íbúðum?
„Björt og opin rými eru mjög eftirsótt núna. Opið eldhús sem rennur saman við stofuna og stórir gluggar sem hleypa inn náttúrulegri birtu gegna þar lykilhlutverki. Marmari, steinn og viður hafa aldrei verið vinsælli. Hlýir jarðlitir eins og drapplitaðir, brúnir, og náttúrulegir grænir tónar skapa rólegt og gott andrúmsloft. Stílhrein hönnun með einfaldleikann að leiðarljósi er einnig vinsælt núna,“ segir Móeiður og leggur áherslu á að nú skipta heimili meira máli en þau hafa oft áður gert.
„Vegna aukinnar fjarvinnu hefur orðið sú þróun, og við sjáum það greinilega, að fólk leitar mikið eftir rými fyrir vinnuaðstöðu, jafnvel í minni íbúðum. Þetta getur verið skrifborð í opnu rými eða lítil aukaherbergi, svo dæmi séu tekin. Einnig er mikil eftirspurn eftir náttúru í nálægð við heimilið. Þeir sem kaupa sér fasteignir vilja tengingu við útiveru, þakgarða, yfirbyggðar svalir og fallega innigarða. Íslendingar vilja vera í nálægð við náttúruna.“
Móeiður segir unga fólkið á fasteignamarkaðnum í dag leita að hagkvæmum og vel skipulögðum íbúðum með nútímalegum innréttingum. „Staðsetning húsnæðis skiptir ungu fólki einnig máli. Hagkvæm stærð og gott skipulag. Þó fermetrarnir skipti nú sem fyrr máli, þá er skipulagið enn mikilvægara. Fólk vill pláss sem nýtist vel í daglega lífinu og býður upp á þægindi án þess að vera yfirþyrmandi. Þar eru sveigjanleg opin rými sem aðlaga má að þörfum hvers og eins, í sérstöku uppáhaldi. Þá finnst mér einnig vert að nefna mikilvægi þess að velja gæði sem endast, eins og stílhreinar innréttingar úr varanlegu efni, til að forðast dýrar framkvæmdir í framtíðinni,“ segir Móeiður.
Hvers vegna ætti fólk að fjárfesta í húsnæði núna?
„Það eru margar ástæður fyrir því að nú er rétti tíminn til að fjárfesta í húsnæði. Fyrst og fremst er húsnæði ekki bara fjárfesting heldur einnig heimili. Það veitir þér og þinni fjölskyldu stöðugleika og öryggi. Sem fjárfesting, þá hafa fasteignakaup reynst árangursrík leið til að byggja upp eignir. Þrátt fyrir sveiflur á markaðnum, hafa fasteignir á Íslandi sögulega aukist í verðgildi til langs tíma. Lykilþættir í þessari þróun hefur verið miðlæg staðsetning og byggingargæði. Ég mæli því eindregið með að kynna sér íbúðir líkt og þær sem finna má í Vesturvin. Staðsetningin út á Granda er frábær og uppbyggingin þar er í hæsta gæðaflokki.“
Móeiður ráðleggur hverjum þeim sem er að íhuga kaup eða sölu á fasteign, að ráðfæra sig við fasteignasala snemma í ferlinu. „Við erum hér til að veita faglega ráðgjöf og aðstoða við öll fasteignamál. Það er alltaf hægt að hafa samband við Mikluborg eða mig persónulega til að fá ráðgjöf um möguleika sína. Að hafa traustan fasteignasala sér við hlið með innsýn í markaðinn getur verið ómetanlegt.“
Hvað er að þínu mati svona einstakt við íbúðirnar í Vesturvin?
„Íbúðirnar í Vesturvin eru einstakar því þær bjóða upp á nútímalega og glæsilega hönnun sem er jafnframt hlýleg. Mikið er lagt í gæðastaðla í íbúðunum, stílhrein litaþemu, sérsmíðaðar ítalskar innréttingar og vönduð tæki. Íbúðirnar eru allar búnar fallegum gólfsíðum gluggum sem hámarka birtuna og útsýnið er engu öðru líkt,“ segir Móeiður og heldur áfram að útskýra:
„Þessar einstöku íbúðir bjóða upp á fjölbreytt íbúðaskipulag sem henta bæði fjölskyldum og einstaklingum. Það er eitthvað við þessar íbúðir sem fær mann til að ímynda sér kvöldstund með vinum, kannski opna eina rauðvínsflösku og horfa á sólina setjast yfir borgina. Það er eiginlega ómögulegt að ganga hér inn án þess að fá smá vá-tilfinningu. Þá sameinar Vesturvin nálægð við borgina og friðsælt umhverfi. Það er stutt í verslanir, menningu og náttúru, sem gerir þetta að fullkomnum stað fyrir þá sem vilja sambland af þægindum og lífsgæðum.“
Nú er fyrsti áfangi í Vesturvin 2 tilbúinn til afhendingar og íbúar hafa þegar byrjað að flytja þar inn. „Í Vesturvin 2 bjóðum við upp á tveggja til fjögurra herbergja íbúðir með ásett verð frá 75 milljónum króna. Mikil aðsókn hefur verið í þessar íbúðir en úr nógu er að velja. Íbúðir í Vesturvin 1 verða tilbúnar til afhendingar um mánaðarmótin mars/apríl og íbúðirnar í Vesturvin 3 verða afhentar haustið 2025. Íbúðir í Vesturvin 3 er í forsölu núna og kosta íbúðirnar frá 49,9 milljónum króna,“ segir Móeiður.
Fasteignamarkaðurinn á Íslandi er í stöðugri framþróun. „Ný verkefni eins og lúxusíbúðirnar í Vesturvin bjóða upp á einstakt tækifæri til að eignast heimili sem uppfyllir allar kröfur nútímans. Þetta er fullkominn kostur fyrir alla þá sem vilja njóta bæði nálægðar við borgina og náttúrunnar að mínu mati.“