Úr flugfreyjubúningnum í vöðlurnar

Fyrrum flugfreyjan er nú komin á fullt í veiðileiðsögn og …
Fyrrum flugfreyjan er nú komin á fullt í veiðileiðsögn og nýtur sín til hins ítrasta. Hér er Unnur með ánægðum viðskiptavini og ekki leynir sér gleðin hjá leiðsögukonunni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Í þrjú ár hafði Unnur Guðný María Gunnarsdóttir stokkið á milli þess að vera flugfreyja og leiðsögumaður fyrir veiðimenn. Býsna ólík störf sem þó eiga ýmislegt sameiginlegt. Þjónusta við, og tryggja öryggi viðskiptavina. Svo kom að því að hún lagði flugfreyjuskóna á hilluna eftir að hafa flogið í 27 ár með Icelandair og flugfélaginu Ernir, og vöðluskórnir urðu hversdags skór. 

„Já. Ég ákvað að taka stökkið í vor og hef verið í leiðsögn með veiðifólk í allt vor og sumar. Nú er líf mitt tvískipt. Leiðsögukona á vorin og sumrin og svo er ég listamaður á veturna. Mála þá í vinnustofunni minni í Íshúsinu í Hafnarfirði, ásamt fjölmörgum öðrum listamönnum sem leigja þessa aðstöðu saman,“ upplýsir Unnur í samtali við Sporðaköst.

Unnur María í gamla lífinu sínu. Flugfreyja til 27 ára. …
Unnur María í gamla lífinu sínu. Flugfreyja til 27 ára. Er nú lent og búin að leggja flugfreyjubúningnum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Keypti annað vöfflujárn

Veiðitímabilið og leiðsögnin hófust hjá henni í apríl og stendur enn. Þetta er löng törn og krefjandi, bæði andlega og líkamlega. Hún segir að vöfflur séu hennar stóri veikleiki í lífinu og hún hafi svo sannarlega fundið fyrir þeim í vor þegar hún fór í fyrsta skipti í vöðlurnar. „Það var bara eins og beltið hefði styst. En það breyttist fljót og í dag er það orðið of langt. Það hafa runnið af mér tíu kíló í sumar. Veturinn verður samt áskorun því ég keypti nýlega annað vöfflujárn og er með það heima. Hitt er í vinnunni,“ hlær hún dátt.

„Besta vafflan?“ Hváir hún. „Vöfflur eru bestar með öllu en þó of góðar með bacon og sýrópi.“

Vaffla með beikoni og sýrópi. Sennilega besta samsetningin að mati …
Vaffla með beikoni og sýrópi. Sennilega besta samsetningin að mati Unnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Unnur Guðný er dugleg að deila efni á samfélagsmiðlum og það leynir sér ekki að hún hefur lent í ýmsu í sumar. Veðrið var ekki endilega upp á það besta en hún hlær bara að því og segir hverjum degi fylgja áskorun í leiðsögumennskunni. 

Hvað ertu eiginlega búin að vera í leiðsögn í marga daga í ár?

„Ég er ekki búin að taka það saman, en sennilega eru þeir að nálgast hundrað eða meira jafnvel. Er ekki alveg með töluna á hreinu. Það má segja að afkomukvíði yfir því að vera ekki með fastan launatékka hafi gert það að verkum að ég sagði alltaf já, þegar ég var beðin um að taka fleiri verkefni. Svo er þetta svo ótrúlega skemmtilegt. Veiðin togar svo ótrúlega fast í mann og ég er með svo mikla veiðidellu. Rosalega mikla.“

„Engin pressa. Góður ef ég fæ þrjá“

En hvernig sumar var þetta? Tölum fyrst um veðrið.

„Veðrið,“ hlær hún. „Það var náttúrulega alls konar. Vorið var skítkalt. Ég var rosalega mikið að ströggla í byrjun tímabilsins. Maður kom til dæmis keyrandi inn á Þingvelli tvisvar eða þrisvar og allt var hvítt. Framundan var að standa þarna í tíu tíma með viðskiptavin og veiða ekki neitt. Svo þarf maður að halda uppi stemmingunni og voninni. Oft eru væntingar viðskiptavina gríðarlegar.

Fólk er búið að sjá myndir af risaurriðum og er að fara að veiða svoleiðis fiska. Ég man eftir einum veiðimanni sem kom í bílinn til mín í apríl. Hann sagði að það væri engin pressa. Hann væri ánægður ef hann næði bara þremur eða fjórum risa urriðum. Þetta er ekkert stress fyrir þig. Þrír er alveg nóg. Ég horfði bara út á vatnið og hmmm. Þá reynir oft á að fara fínt í hvernig staðan er þann daginn og hvað geti verið raunhæft.“

Hér á bara eitt orð við. Jess.
Hér á bara eitt orð við. Jess. Ljósmynd/Úr einkasafni

Unnur segir að oft mæti fólk íslenskum aðstæðum sem séu erfiðari en það hafi kynnst áður. Fólk sem hefur til dæmis veitt með flugustöng tvisvar um ævina mætir svo í norðanáttina og þarf að takast á við hana. Það segi sig sjálft að fólk með þá getu eigi minni séns á að fá fisk en til dæmis vanur og góður flugukastari.

„Ég er ofvirk og með veiðidellu fyrir allan peninginn. Mér finnst þetta svo skemmtilegt vinna. Þú mætir í vinnuna og ert að fara að veiða. Hvað er til betra? Ég fæ jafn mikið út úr því að veiða sjálf og að veiða með viðskiptavini. Ég er alveg jafn spennt og svekkt eftir því hvernig veiðin gengur. Ég er „all in“ og þá skiptir ekki máli hvort ég er að veiða eða gæda.“

Vinnustaðurinn hjá Unni hefur verið býsna fjölbreyttur og víða. Hún var í leiðsögn í Villingavatni, Villingavatnsósi, á ION svæðinu í Þingvallavatni, á Kárastöðum og í Hólaá. Þá var oft farið í Sogið, bæði Alviðru og Þrastarlund. Svo var það hálendið. Kaldakvísl og Tungnaá. Unnur er mest að vinna fyrir Fish Partner og einnig fyrir veiða.is

Mældur fallegur urriði úr Villingaholtsvatni. Unnur er enn í leiðsögn …
Mældur fallegur urriði úr Villingaholtsvatni. Unnur er enn í leiðsögn og hefur verið að gera gott mót í þessu skemmtilega urriðavatni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fótbolti með Ronaldo

Eftir þetta langa, krefjandi og skemmtilega sumar, er eitthvað sem stendur upp úr veiðilega? Unnur þarf ekki að hugsa sig lengi um. Hún fór með Leif Stavmo, hönnuði Guideline veiðibúnaðar. Hann var hér í átta daga og Unnur var að veiða með honum. Hún minnist sérstaklega gulrar veðurviðvörunar sem þau lentu í á ION svæðinu. 

„Það var nánast ekki stætt. Það var allt í kakói. En við lentum í mestu veiðiveislu sem ég hef nokkurn tíma á ævinni upplifað. Það var besti dagur sumarsins. Þó að ION svæðið sé þekkt fyrir góða veiði í slæmu veðri þá átti maður ekki von á svona ævintýralegri veiði. Það var magnað að veiða með Leif. Hann er án efa einn af bestu veiðimönnum í heimi og þetta var svolítið eins og að vera spila fótbolta við Ronaldo. Hann var að prufa nýjar línur og hluti sem hann hefur hannað fyrir næsta tímabil.“

En var einhver dagur verri eða erfiðari en aðrir?

Hér þarf hún að hugsa sig um í dágóða stund. „Bíddu nú við. Leyfðu mér að hugsa. Það var eiginlega enginn vondur dagur. Jú reyndar er það þannig að stundum tekur veðrið völdin og ég lenti í því í um daginn að ég var uppi á hálendi. Það var allt í lagi spá. Hún var ekki góð en við lentum í frost slyddu ofsaverðri. Það var ekki fræðilegur möguleiki að koma flugunni út. Það var ekki hægt. Við vorum búin að vera að berast þarna í korter þegar þetta fór út í það að þetta var orðið hættulegt.

Þá ýtti ég á off takkann. Við vorum á efsta svæði Köldukvíslar og þar eru aðstæður krefjandi. Steinarnir eru mjög hálir og botninn erfiður til að vaða. Svo voru sviptivindar hægri vinstri og þá verður maður að grípa í taumana. En þessi dagur endaði vel. Þeir eru svo sveigjanlegir og flottir strákarnir hjá Fish Partner sem ég er að vinna með. Ég hringdi í þá og fór yfir stöðuna. Þeir buðu okkur þá að fara í Villingavatn og við létum ekki segja okkur það tvisvar. Við brunuðum þangað og á stuttum tíma landaði þessi veiðimaður tveimur sjötíu köllum á sömu fluguna. Þannig að dagurinn endaði á hárri nótu og mikilli hamingju.“

Flugfreyjutaktar úti í náttúrunni. Kaffi eða te?
Flugfreyjutaktar úti í náttúrunni. Kaffi eða te? Ljósmynd/Úr einkasafni

Flugan stakkst á kaf í höndina – tvisvar

Ævintýri sumarsins hjá leiðsögukonunni voru af öllum gerðum. Eitt skiptið lenti hún í því í tvígang að veiðimaður fékk fluguna á kaf í höndina á sér. Í fyrra skiptið stakkst hún á kaf í vöðvann ofan við þumalputta. Þá kom í hlut Unnar að kippa flugunni úr. Hún er þaulvön því og kom þar að góðum notum nám og æfingar í leiðsögumannaskólanum. 

„Þegar þú ert í roki í rigningu uppi á hálendinu er eins og vindurinn gefi engin grið. Það er sama hvernig þú snýrð veiðimanninum. Vindurinn virðist alltaf koma úr verstu átt. Fólk er varið af fatnaði og með húfu og gleraugu en hendurnar eru oftast berar að stórum hluta. Þetta var ekki skemmtilegt fyrir neinn. Fyrst kippti ég flugunni úr þumalputtavöðvanum og svo stakkst hún í handarbakið. Það var svo sem ekkert mál að gera þetta en hefði verið betra fyrir alla að þurfa ekki að gera þetta.“

En hundrað dagar Unnur. Það er krefjandi og ekki fyrir alla?

„Ég er náttúrulega ofvirk og skipulagði mig vel. Ég forgangsraðaði. Svefninn var númer eitt og svo mataræði númer tvö. Ég kom mér upp stífri rútínu. Svo koma inn á milli styttri dagar og maður jafnvel kominn heim síðdegis. En flestir dagarnir voru langir og stundum skrambi erfiðir.“

Guttormur er aldrei langt undan. Hann er einn stórvaxnasti Labrador …
Guttormur er aldrei langt undan. Hann er einn stórvaxnasti Labrador á landinu. Vegur nálægt sjötíu kílóum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Pínu eins og að búa með hesti

Unnur býr með Gutta sínum. Hann er tólf ára gamall Labrador og hún vill meina að hann sé stærsti hundur sinnar tegundar á Íslandi. Hann vegur hátt í sjötíu kíló og er á stærð við ísbjörn. „Hann er mjög stórbyggður og þetta er pínu eins og að búa með hesti en hann var í pössun hjá nunnunum í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði í sumar. Hann er sennilega heppnasti hundur í heimi því þar hugsa um hann þrettán kærleiksríkar nunnur og hann er bara í hamingjukasti.”

Fullu nafni heitir hinn stórvaxni Labrador Guttormur og minnir það nafn strax á nautið mikla sem dvaldi í Húsdýragarðinum og var eitt af þyngstu nautum á Íslandi. Vó 942 kíló þegar hann var upp á sitt besta.

Að háfa flottan fisk er mikilvægur hluti starfans. Það vill …
Að háfa flottan fisk er mikilvægur hluti starfans. Það vill enginn leiðsögumaður klúðra slíkum lokapunkti. Hér tekst vel til. Ljósmynd/Úr einkasafni

Gutti hafði ratað til Dýrahjálparinnar. Unnur sá mynd af honum þar sem sagði, „Guttormur ennþá hjá Dýrahjálp.“ Þetta fékk Unni til að hringja og spurðist fyrir um hvað væri að hrjá þennan fallega Labrador. Hún fékk þau svör að það væri ekki hægt að leggja það á hann að hitta fleira fólk sem myndi svo skila honum.

Unnur var ekki sammála þessu og fór og sótti Guttorm. Hann kunni ekki að ganga í taumi og var lítt vanur að hlíða. „Ég tók hann heim og ég get svarið það að þegar ég horfði á hann um kvöldið hugsaði ég með mér, hvað er ég búinn að koma mér út í? En í dag er hann mömmuson og alveg yndislegur í alla staði.“ Þessi nautsterki Labrador býr nú með Unni og fer vel á með þeim.

Nú þegar veturinn er að læðast að, fara völur og …
Nú þegar veturinn er að læðast að, fara völur og veiðistangir inn í geymslu og fram eru teknir penslar. Unnur hefur þá meiri tíma fyrir myndlistina. Verkin bak við hana heita HUGREKKI og STYRKUR og eru hluti af seríu um lífsgildi sem hún málaði. Ljósmynd/Úr einkasafni

Sandá í Þjórsárdal er „nýjasta uppáhalds áin“ hennar. Henni var óvænt boðið að skjótast í Sandá. Hún hafði verið með konu í leiðsögn uppi á hálendinu og þær voru búnar að gera fína veiði. Þetta var síðasti dagur konunnar og hálendið var að syngja sitt síðasta í silungsveiðinni.

Þær veiddu nokkra flotta urriða en síðdegis kvöddust þær og konan hélt í sína gistingu. Unnur heyrði í Sindra Hlíðari Jónssyni hjá Fish Partner og gaf skýrslu um daginn. „Þú ert ekki að fara heim. Þú ert að fara að veiða,“ sagði Sindri við Unni. Hún svaraði að bragði. „Já.“ Þarna var klukkan að verða fimm og hiklaust þrír tímar eftir af dagsbirtu. Laust var í Sandá í Þjórsárdal og hún brenndi þangað. 

„Ég lenti þarna í aðstæðum og upplifun sem ég á eftir að muna alla ævi. Það var stafalogn og kyrrðin var svo mögnuð. Ég þekkti svæðið ekki mikið og eins bjáni set ég strax í stóran lax. Tek upp símann og tók vídeó og var nokkuð lengi með hann á. Svo slítur hann sig lausan og ég var samt alveg í skýjunum. Frábær lífsreynsla og ég var svo glöð. Ég var að tala við guð og sjálfa mig og þakka fyrir þetta. Held samt áfram að veiða og tek aftur upp símann og er að mynda kyrrðina og þessa fegurð. Og sem ég er að mynda tekur annar lax þegar ég er að mynda. Var svo magnað. Svo fékk ég nokkra flotta urriða og allt þetta á rúmum tveimur tímum.“

Nýja lífið. Drekkhlaðin nauðsynjum til að eiga góðan dag á …
Nýja lífið. Drekkhlaðin nauðsynjum til að eiga góðan dag á hálendinu með erlendum gestum. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ekki sjálfgefið að ráða flugfreyju“

Framtíðin er ráðin hjá Unni. Meiri leiðsögn hjá næsta sumar og það með Fish Partner fyrst og fremst. „Þeir gáfu mér sénsinn, sem ég er svo þakklát fyrir. Það er ekki sjálfgefið að taka flugfreyju, þó að hún hafi veiðidellu, og ráða hana sem leiðsögukonu fyrir erlenda veiðimenn. Mér hefur fundist mjög gott að vinna fyrir þá og þeir eru alltaf til í grípa mann þegar er lítið að gerast eða kúnninn er ekki alveg að standa undir því sem hann sagði. Kúnni sem segist vera mjög vanur veiðimaður hefur kannski fengið sína reynslu í gegnum spúna veiði með frænda sínum fyrir tuttugu árum. Þá getur þurft að breyta til og menn hafa skilning á að það geta komið dagar þar sem ekki veiðist.“

Unnur rifjar upp atvik frá í sumar. Hún kemur að Villingavatni og það er nokkuð labb frá bílastæðinu að vatninu. Viðskiptavinirnir voru eldri hjón og maðurinn spurði. „Ætlarðu ekki að keyra að vatninu?“ Unnur leit á hann og sagði „Nei. Við getum það ekki. Þetta er bara mýri og ekki hægt að keyra lengra.“ Eldri maðurinn horfði á vatnið og leit svo á Unni. „Ég er ekki að fara að labba alla þessa leið.“ Vissulega geta komið upp alls konar og ótrúlegar aðstæður.

Kominn í háfinn og gert klárt fyrir sleppingu.
Kominn í háfinn og gert klárt fyrir sleppingu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Það eru ekki margar konur á Íslandi sem hafa lagt fyrir sig leiðsögn í veiði. Unnur játar því en nefnir þó til sögunnar Kötku Svagrova sem hefur verið í leiðsögn í Kjósinni um árabil og nefnir Kristínu Björg Gísladóttur  sem vinnur hjá Six Rivers Iceland og þær Nes konur í Aðaldal, Andrea, Alexandra og Áslaug Anna og Arndís. Þá nefnir hún líka Hörpu Hlín hjá Iceland Outfitters og Ragnheiði Thorsteinsson, formann Stangó sem flottar fyrirmyndir í veiðinni. 

„Ég veit í augnablikinu ekki um fleiri konur. En mig langar að nefna að tækifærin fyrir konur sem vilja fara í þetta eru ótrúlega mörg og ég hvet þær sem hafa áhuga að taka stökkið. Ég hef svo oft lent í því að fá hjón og það er spurt hvort hægt sé að fá konu sem leiðsögumann. Því oft er það þannig að maðurinn er nokkuð vanur en konan ekki eins vön. Þá virkar oft vel að kona kenni konunni. Ég fæ oft fólk sem er að heimsækja Ísland og svo er líka farið að veiða. Ekki endilega komið til landsins til veiða. Það er svona viðbót.“

Ungar konur streyma í fluguveiðina

Vissulega er stangveiði karllægt sport. En... Hér vitnar Unnur til samtals sem hún átti við Kötku, leiðsögukonu í Kjósinni. „Hún sagði mér að ungar konur í Bandaríkjunum streymi út í fluguveiði. Fjölgunin sé svo mikil að hún sé meiri en í golfinu. Þannig að tækifærunum á bara eftir að fjölga fyrir konur sem hafa áhuga á fara á fullu í leiðsögn eða sportið yfir höfuð.

Maður sér það líka að öll fyrirtæki sem eru að framleiða veiðibúnað eru á fullu að vinna í vöruþróun fyrir þennan markað. Ég er að vinna með Guideline og þar er allt á fullu við að hanna og þróa búnað fyrir konur. Þeir eru líka mjög hvetjandi í garð kvenna að fara út og veiða. Mér finnst mjög gott og gefandi að vinna með þeim,“ segir Unnur. 

Hennar framtíð er veiðileiðsögn. Flugfreyjubúningurinn er kominn inn í skáp upp í efstu hillu. Þrjátíu þúsund fetin eru ekki lengur vinnustaðurinn. En þau eru alveg til staðar og það flesta daga, en eru bara innra með henni í hvert skipti þegar hún fer í veiði, sjálf eða með öðrum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert