Vatnslitamynd af veiðiflugu, sem Sigurður Árni Sigurðsson, einn af Íslands allra fremstu myndlistarmönnum málaði, hefur nú vaknað til lífsins og er flugan sjálf komin fram á sjónarsviðið og til sölu á flugubarnum í Veiðihorninu. Flugan varð til í huga listamannsins og þó hún beri keim af einhverjum flugum er hún skáldskapur í þeim skilningi.
Til eru margar skemmtilegar og áhugaverðar sögur af því hvernig flugur urðu til. Eins og svo margar af þessum sögum er sagan af Unnamed Beauty skemmtileg.
„Sigurður Árni, myndlistamaður og veiðimaður færði okkur Maríu fyrir fáeinum misserum vatnslitamynd af flugu. Fluga sem ekki var til nema bara í höfðinu á listamanninum, sem hafði með vatnslitum komið henni á pappír. Fluguna nefndi Sigurður Unnamed Beauty. Þetta er svona hugarfluga, eða var.
Eigum við ekki að láta hnýta þessa flugu? spurði ég svo Sigga,“ segir Ólafur Vigfússon, þegar hann er spurður um nýjustu afurðina á flugubarnum.
Óli segir að fátt hafi orðið um svör hjá myndlistamanninum og hann hafi því ákveðið að taka af skarið.
„Ég sendi mynd af listaverkinu til Niklas Dahlin en hann er einn helsti hönnuður og hnýtari hjá Shadow Flies í Thailandi hvar við látum hnýta allar flugurnar okkar. Niklas hnýtti prufuútgáfu og sendi mér mynd. Ég áframsendi myndina á Sigurð Árna. „Kem eftir 10,“ svaraði hann og skömmu síðar birtist hann á gólfinu í Síðumúlanum. Við vorum sammála um að láta hnýta einkrækjuna sem hann hafði hannað og var hvergi til, sem silfur tvíkrækju. Unnamed Beauty er nú komin á flugubarinn í Veiðihorninu, ennþá eingöngu í stærð 10 á silfurtvíkrækju en stærð 12 er væntanleg. Sigurður var svo ánægður með útkomuna að hann stakk uppá því að sá eða sú sem veiddi fyrsta laxinn á þessa ónefndu fegurð fengi prent af flugunni í gjöf. Mér finnst þetta skemmtileg og í raun merkileg saga því þarna er listamaður sem fær „flugu í höfuðið“ og málar hana, flugu sem ekki er til í raun og veru. Og eftir listaverkinu er hnýtt fluga sem á að veiða fisk. Hugarfluga sem verður að gríðarlega fallegri laxveiðiflugu.“
Sigurður Árni er hæst ánægður með útkomuna. „Forsagan að þessu er að ég byrjaði að mála flugur um aldamótin. Þá gjarnan útbjó ég þær á einskonar póstkort og sendi vinum við hátíðleg tækifæri. Á jólum og við sambærileg tækifæri. Allar þessar fyrstu flugur voru þó ómögulegar flugur og áttu sér litla stoð í raunveruleikanum,“ hlær Siggi.
Síðar þróaðist þetta út í að hann fór að mála vatnslitamyndir af þekktum flugum. Þannig tóku þeir félagar, Einar Falur Ingólfsson, Þorsteinn Joð og Sigurður Árni ákvörðun um það þegar þeir skrifuðu hina miklu bók um Vatnsdalsá að Siggi myndi mála myndir af flugum í stað þess að þær yrðu ljósmyndaðar. Það lukkaðist líka svona ljómandi vel og vakti víða athygli. Þessar myndir hafa ratað víða, bæði í veiðihús, utan á kampavínsflöskur og sem innrömmuð listaverk eins og gerðist með Ónefnda fegurð eða Unnamed beauty. „Já. Ég er kominn með eintak en hef ekki enn haft tækifæri til að prófa að veiða á hana. Það mun gerast í Vatnsdalnum síðar í sumar. Ég veit að hún hefur verið að seljast í Veiðihorninu og félagar mínir hafa verið að prófa hana,“ upplýsir höfundurinn.
Hann segir þetta algerlega nýja nálgun. Það er þekkt að stundum sé stillt upp á sýningum myndum og þar til hliðar megi sjá ávextina og eða krukkuna sem myndlistamaðurinn var að vinna með að koma á striga eða pappír. Hér er þessu öfugt farið. Flugan var hnýtt eftir listaverkinu og lifnaði þannig við af pappírnum.
„Sá sem veiðir fyrsta laxinn á þessa flugu og segir okkur frá því mun fá prent af verkinu, innrammað. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig það mun ganga. Auðvitað verður það skemmtilegt augnablik að setja þessa flugu undir þegar maður mætir í Vatnsdalinn og kasta henni fyrir fisk,“ segir Siggi. Það væri fullkomin lokun á hringnum ef listamaðurinn sjálfur fengi svo lax á Unnamed beauty, eða Ónefnda fegurð.
Sporðaköst bíða spennt eftir framhaldinu. Hver fær fyrsta laxinn á fluguna?
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
100 cm | Miðfjarðará | Christopher Hill | 19. júlí 19.7. |
100 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 15. júlí 15.7. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 7. júlí 7.7. |
103 cm | Miðfjarðará | Eduardo | 2. júlí 2.7. |
100 cm | Sandá í Þistilfirði | Eiður Pétursson | 24. júní 24.6. |
Veiðiárið 2024: | |||
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |