Fótbolti
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is Hermann Hreiðarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, náði stórum áfanga á löngum ferli á laugardaginn þegar hann lék með Portsmouth gegn Swansea í ensku 1. deildinni. Hermann spilaði þar sinn 500. deildaleik á löngum og farsælum ferli og varð með því aðeins þriðji íslenski knattspyrnumaðurinn í sögunni sem nær þeim leikjafjölda.
Hermann spilaði síðan 501. leikinn í gær þegar Portsmouth sótti Burnley heim. Arnór Guðjohnsen hefur átt leikjametið lengi en hann spilaði samtals 523 deildaleiki á sínum ferli. Ívar Ingimarsson varð fyrr í vetur annar Íslendingurinn til að ná 500 leikjum og hann er nú kominn með 512 leiki. Það styttist því í að met Arnórs verði slegið en bæði Ívar og Hermann gætu farið fram úr honum á þessu ári.
Leikjahæstur Norðurlandabúa
Hermann, sem er 36 ára gamall, lék með meistaraflokki ÍBV í fimm ár áður en hann hélt til Englands í ágúst 1997 og þar hefur hann leikið síðan. Hann er nú að ljúka sínu 14. keppnistímabili í Englandi og af 435 leikjum í deildakeppninni þar í landi hefur Eyjamaðurinn spilað 332 í úrvalsdeildinni, en þar er hann leikjahæstur Norðurlandabúa frá upphafi. Hermann hefur jafnframt náð því að spila í öllum deildum í Englandi því hann lék með Brentford í rúmt ár og lék með liðinu í 3. deild og síðan nokkra leiki í 2. deild.Alls hefur varnarjaxlinn gert 26 mörk í deildaleikjum á ferlinum. Sjö fyrir Portsmouth, sex fyrir Brentford, fimm fyrir ÍBV, þrjú fyrir Charlton, tvö fyrir Crystal Palace, tvö fyrir Ipswich og eitt fyrir Wimbledon. Fjórtán af þessum mörkum hefur Hermann gert í úrvalsdeildinni.
Byrjaði hjá Crystal Palace
Annars hóf Hermann ferilinn í Englandi með Crystal Palace í úrvalsdeildinni í ágúst 1997. Þaðan fór hann til Brentford 1998, til Wimbledon 1999, til Ipswich 2000, til Charlton 2003 og loks til Portsmouth árið 2007 þar sem hann hefur spilað síðan. Lánið hefur ekki leikið við Hermann að því leyti að öll fimm liðin sem hann hefur spilað með í úrvalsdeildinni hafa fallið þaðan á hans tíma þar. Aftur á móti er hann eini íslenski knattspyrnumaðurinn sem hefur fagnað sigri í ensku bikarkeppninni en hana vann Hermann með Portsmouth á Wembley vorið 2008.Eins og fram kom í viðtali við Hermann í Morgunblaðinu í síðustu viku eru talsverðar líkur á að hann verði áfram í herbúðum Portsmouth á næsta keppnistímabili.