Sleðaferð Vélsleðafólk var víða um páska. Margt ber að varast á útmánuðum, þegar bloti er kominn í snjó.
Sleðaferð Vélsleðafólk var víða um páska. Margt ber að varast á útmánuðum, þegar bloti er kominn í snjó. — Morgunblaðið/Ómar
Vélsleðamaðurinn sem lenti í byltu á Tröllafjalli í Áreyjardal inn af Reyðarfirði á laugardag liggur slasaður á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Er hann töluvert brotinn en þó á batavegi, að sögn læknis.

Vélsleðamaðurinn sem lenti í byltu á Tröllafjalli í Áreyjardal inn af Reyðarfirði á laugardag liggur slasaður á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Er hann töluvert brotinn en þó á batavegi, að sögn læknis.

Björgunarsveitir á Austurlandi sóttu manninn og var hann fluttur til Reyðarfjarðar og á Egilsstaði og með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Páskahelgin var nokkuð annasöm hjá björgunarsveitum. Nokkuð var um minni útköll, t.d. við að losa fasta bíla úr sköflum og forarpyttum sem eru víða nú þegar frost fer úr jörðu. Þannig fóru björgunarmenn úr uppsveitum Árnessýslu á föstudaginn langa inn á Bláfellsháls á Kjalvegi þar sem jeppamenn höfðu fest sig í slæmu færi.

„Þó allt sé hvítt yfir að líta er bloti í snjónum og það getur villt um fyrir ferðamönnum. Bílar frá okkur sem voru inni í Landmannalaugum komust hvorki lönd né strönd og sömuleiðis gátum við ekkert hreyft snjóbíl. Það er margt að varast,“ sagði Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í samtali við Morgunblaðið í gær.

sbs@mbl.is