Nýjar kenningar um þingkjör og þingræði
Ríkisstjórnin stendur og fellur með Þráni Bertelssyni. Það er sama fyrirhyggja og fara í óvissuferð um úfið hraun og treysta á að stagbætt dekk og slitið haldi. Ekki verða margir til að sækjast eftir sæti í þeim leiðangri. En það spaugilega er að samkvæmt ályktunum sem pantaðar eru úr kjördæmum þingmanna VG sem starfa vilja í samræmi við stefnu þess flokks og kosningaloforð þá á Þráinn að víkja þegar af þingi og „hleypa“ varamanni sínum þangað inn. Þráinn er að vísu ekki nefndur í þessum ályktunum. En eitt hlýtur yfir alla að ganga. RÚV og Baugsfréttastofurnar, sem birta jafnan þessar pöntuðu yfirlýsingar sem fyrstu fréttir og með löngum viðtölum við fólk úr „svæðisstjórnum“ flokksins, spyrja reyndar aldrei um Þráin. Hvers á hann að gjalda? Ekki getur það verið vegna þess að varamaður hans styður ekki ríkisstjórnina? Ef hinar nýju kenningar væru réttar og réttkjörnum þingmönnum (öðrum en Þráni) bæri að hypja sig ef þeir færu úr þingflokki gæti ríkisstjórn aldrei misst meirihluta sinn hversu sem hún storkaði stuðningsmönnum sínum á þingi. Þá rækju „svæðisstjórnir“ ósátta þingmenn út, þvert á lög og stjórnarskrá og svo yrði leitað niður eftir öllum framboðslistanum þar til einhverjir fyndust sem styðja vildu ósómann. En það er ríkisstjórnin sem verður að njóta nægjanlegs stuðnings á þingi, en þingmenn eru ekki bundnir af stuðningi ríkisstjórnar við sig.