Lilja Hrund Lúðvíksdóttir
liljahrund@mbl.is
Dómstólasýslan leitar nú leiða til að bregðast við því að á vefsíðum dómstólanna sé að finna stórt safn dóma og úrskurða sem innihalda persónuupplýsingar og að svo virðist sem birting þeirra samrýmist ekki persónuverndarlögum í öllum tilfellum. Í kjölfar ábendingar til Persónuverndar frá einstaklingum um dóma sem birtir eru á vefsíðum íslenskra dómstóla og hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar hóf stjórnvaldið frekari skoðun á málinu. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að í bréfi til Dómstólasýslunnar í ágúst 2018 hafi verið óskað eftir því að stofnunin veitti upplýsingar um meðal annars hvernig Dómstólasýslan hygðist bregðast við birtingu eldri dóma sem kunna að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Persónuvernd ítrekaði þessa beiðni nú í maí og strax í kjölfarið bað Dómstólasýslan um fund með Persónuvernd, sem fór fram í byrjun júní. Dómstólasýslunni var veittur svarfrestur vegna málsins og segir Helga að viðbrögð Persónuverndar ráðist af þeim upplýsingum sem Dómstólasýslan komi til með að veita.
Helga segir að Persónuvernd hafi borist þó nokkrar ábendingar um birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga í dómum. „Við höfum brugðist við þeim ábendingum sem okkur hafa borist en það er nokkuð ljóst að það gætu verið fleiri dæmi þarna úti. Þess vegna erum við núna að vinna í þessu. Venjulega er reglan sú að íþyngjandi lagaákvæði eru ekki afturvirk, en ef það er viðvarandi aðgengi að einhverju sem er talið brjóta persónuverndarlög þarf að skoða það. Umfangið gæti líka verið töluvert og viðbrögð fara væntanlega eftir því,“ segir Helga.
Flókið að finna lausn
Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri Dómstólasýslunnar, segir að til standi að ræða málið á fundi stjórnar stofnunarinnar á morgun. „Við höfum skoðað, í samráði við dómstólana sem standa að birtingunum, hvernig hægt verði að greiða úr eldri málum,“ segir Ólöf og bætir við að á síðasta ári hafi tekið gildi samræmdar reglur dómstóla um birtingu dóma og úrskurða. „Þegar svona persónuupplýsingar hafa verið birtar þarf að skoða hvort það hafi verið mistök og finna leið til þess að grisja svona mál. Það þarf að hafa fyrir því að finna þau og við þurfum að finna leiðir til þess, svo að við getum yfirhöfuð tekið þau af vefnum,“ segir Ólöf. „Væntanlega hafa orðið mistök, við vitum það, en við vitum ekki hve mörg mál það eru og það er flókið að finna þau eftir á og hreinsa úr þeim. Við erum með þetta í skoðun og leitum leiða til að greiða úr þessu.“Þá segir Ólöf að gengið sé út frá því að þess hafi verið gætt að birta ekki viðkvæmar persónuupplýsingar, enda gildi um það ákveðnar reglur. „Fyrirfram hljótum við að gefa okkur það að þessar upplýsingar hafi verið afmáðar. En við vitum að það hefur ekki alltaf gerst en hversu oft er ekki hægt að segja til um,“ segir Ólöf.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir að til athugunar séu erindi er varða birtingu persónuupplýsinga í dómum sem stefnt er að að afgreiða á næstunni.