Akureyri Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að loka fangelsinu.
Akureyri Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að loka fangelsinu. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
Fangavarðafélag Íslands mótmælir harðlega lokun fangelsisins á Akureyri. Þetta kom fram í yfirlýsingu félagsins í gær. Fangavarðafélagið segir lokunina stangast á við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að fjölga störfum á landsbyggðinni.

Fangavarðafélag Íslands mótmælir harðlega lokun fangelsisins á Akureyri. Þetta kom fram í yfirlýsingu félagsins í gær.

Fangavarðafélagið segir lokunina stangast á við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að fjölga störfum á landsbyggðinni. Með þessu tapist sex stöðugildi úti á landi. „Fangaverðir eru sérhæfð stétt og mesta þekkingin kemur frá starfsreynslu. Áratuga reynsla mun tapast við þessar aðgerðir, ásamt verðmætri tengingu við lögregluna, en fangaverðir og lögreglumenn á Akureyri hafa átt farsælt samstarf í áraraðir,“ segir m.a. í yfirlýsingunni. Þá er bent á að um 13,3% landsmanna búi á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi. Þessir landshlutar þurfi fangelsi í nærumhverfinu bæði til að vista gæsluvarðhaldsfanga og afplánunarfanga. Stór hluti af betrun fanga felist í bættum samskiptum við fjölskyldu og vini. Gott aðgengi og stuttur ferðatími skipti því máli.

Fangavarðafélagið kveðst sýna því fullan skilning að Fangelsismálastofnun hafi sætt niðurskurði ár eftir ár. Það hafi kallað á sparnaðaraðgerðir. Félagið skorar á stjórnvöld að auka fjárheimildir til fangelsiskerfisins svo hægt sé að reka það með sóma. gudni@mbl.is