Aron Þórður Albertsson
aronthordur@mbl.is
Ferðaskrifstofur endurmeta daglega stöðuna á vinsælum ferðamannasvæðum á borð við Tenerife og Alicante. Er fjölgun kórónuveirusmita á Spáni talið áhyggjuefni, enda hætt við því að frekari takmarkanir verði settar haldi þróunin áfram.
Talsverður fjöldi Íslendinga hefur undanfarna daga haldið út til framangreindra staða. „Við erum alltaf að endurskoða okkar framboð og reyna að miða það út frá eftirspurninni. Við höfum verið að fara með fullar vélar til Alicante og Tenerife, en við erum auðvitað alltaf að endurmeta stöðuna,“ segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vita, sem kveðst ekki áhyggjufullur yfir ástandinu þótt sýna verði varkárni. Lítið sé um smit á þeim svæðum sem ferðaskrifstofan flýgur nú til.
„Ástandið á Tenerife er mjög gott. Í síðustu viku voru tíu virk smit og þau voru öll í höfuðborginni sem er langt frá því svæði sem við erum að fljúga á. Ástandið á Alicante er síðan miklu betra en til dæmis í Katalóníu eða í Madríd þar sem fólk býr þéttar,“ segir Þráinn.
Nú um helgina greindi utanríkisráðherra Breta frá því að tekin hefði verið ákvörðun um að setja á tveggja vikna sóttkví fyrir ferðalanga sem koma frá Spáni. Var talið nauðsynlegt að grípa til aðgerðanna sökum snarprar fjölgunar smita á Spáni. Í kjölfarið hvatti forsætisráðherra Spánar stjórnvöld í Bretlandi til að endurskoða ákvörðunina. Aðspurður segir Þráinn að Íslendingar hafi lítið að hræðast á Spáni. „Flestir sem eru að fara til Alicante eru á leið í íbúð eða hús sem þeir hafa aðgang að. Þeir eru ekki í miklu samneyti við heimamenn frekar en útlendingar hér á landi. Maður skilur ekki alveg ákvörðun stjórnvalda í Bretlandi enda hefur fjöldi Breta sagt að þeir telji sig öruggari á Spáni en í heimalandinu,“ segir Þráinn og bætir við að fréttir sem þessar dragi úr vilja fólks til að ferðast. „Þetta hefur áhrif á fólk og það ákveður kannski að bíða frekar. Það á samt ekki að þurfa að hafa áhyggjur þar sem flestir þekkja svæðið mjög vel. Við finnum samt alveg að fólk er aðeins hikandi. Það er enn talsvert eftir af sætum í ferðir í ágúst, en við endurmetum það bara eftir því sem tíminn líður,“ segir Þráinn.
Staðan endurmetin reglulega
Svipað er upp á teningnum hjá Úrvali-Útsýn þar sem farnar hafa verið nokkrar ferðir til Tenerife og Alicante. Að sögn Ingibjargar Elsu Eysteinsdóttur, forstöðumanns hjá ferðaskrifstofunni, er þó viðbúið að endurskoða verði ferðir næstu vikna. „Við erum að bíða eftir upplýsingum, en auðvitað þarf að endurmeta stöðuna ef hótel eða lönd fara að lokast aftur. Það er auðvitað svo að allar slæmar fréttir setja bakslag í sölu hjá okkur,“ segir Ingibjörg, sem sjálf hefur fylgst vel með ástandinu á Spáni. „Eins og staðan er núna er verið að fljúga á Alicante og Tenerife. Við fylgjumst síðan mjög vel með ástandinu enda viljum við vera ábyrg í því sem við gerum.“