— Ljósmynd/Vefmyndavél ÞG Verk
Baldur Arnarson baldura@mbl.is ÞG Verk stefndi að því að ljúka uppsteypu á tvíbreiðri brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi seint í gærkvöldi. Um 25 manna teymi hefur unnið að verkinu. Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir um 1.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

ÞG Verk stefndi að því að ljúka uppsteypu á tvíbreiðri brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi seint í gærkvöldi. Um 25 manna teymi hefur unnið að verkinu.

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir um 1.300 rúmmetra af steypu fara í brúargólfið. Steypumagnið sé 3.500 tonn eða á við lítið fjölbýlishús.

„Brúarsmíðin hefur staðið yfir síðan í sumar og nú er verið að steypa brúardekkið. Við reiknum með að það taki 35 klukkustundir. Sú vinna hófst að morgni sunnudags og stóð yfir í alla nótt [aðfaranótt mánudags]. Það sköpuðust einstakar aðstæður þessa daga. Þurrt var og hlýtt þrjá daga í röð, sem er afskaplega mikil heppni á þessum árstíma,“ sagði Þorvaldur.

Stór á íslenskan mælikvarða

„Það er svo stefnt að því taka nýja tvíbreiða brú yfir Jökulsá í notkun í vor. Þetta er dálítið löng brú. Hún er um 165 metrar, sem er stórt brúarvirki á íslenskan mælikvarða,“ sagði Þorvaldur.