Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Eftir kaldan febrúar bregður svo við að fyrstu 10 dagar marsmánaðar hafa verið fremur hlýir. Þetta kemur fram á Hungurdiskum, bloggsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings á Moggablogginu.

Eftir kaldan febrúar bregður svo við að fyrstu 10 dagar marsmánaðar hafa verið fremur hlýir. Þetta kemur fram á Hungurdiskum, bloggsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings á Moggablogginu.

Meðalhiti fyrstu 10 daga mars í Reykjavík er +1,5 stig, +1,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, og +0,8 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Dagarnir tíu eru í 8. hlýjasta sæti (af 22) á þessari öld. Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2004, meðalhiti þá +6,3 stig, en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti -2,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 45. hlýjasta sæti (af 150). Á því tímabili var hlýjast 2004, en kaldast 1919, meðalhiti var þá -9,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga marsmánaðar +2,4 stig, +3,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, og einnig +3,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Þetta er næsthlýjasta marsbyrjun aldarinnar á þeim slóðum, en kaldast hefur verið við Faxaflóa, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á Suðurlandi. Á þessum slóðum eru dagarnir þeir sjöttu hlýjustu á öldinni.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, mest við Mývatn, þar sem hitavikið er +4,2 stig. Að tiltölu hefur verið kaldast á Skagatá, þar er hitavikið +0,4 stig, segir Trausti.

Mikið rignt í byrjun mánaðar

Úrkoma hefur mælst 95,3 millimetrar í Reykjavík það sem af er mánuði, er það meira er þreföld meðalúrkoma sömu daga. Er þetta mesta úrkoma á öldinni þessa daga og hefur aðeins einu sinni mælst meiri sömu almanaksdaga. Það var 1931 (101,3 mm). Á Akureyri hefur úrkoma hins vegar aðeins mælst 4,3 millimetrar en er þó ekki met.

Sólskinsstundir hafa mælst 24,5 í Reykjavík í marsbyrjun og er það lítillega undir meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 21,3. sisi@mbl.is