Rauða ljónið Bjarni Felixson var lengi einn af hornsteinum Ríkisútvarpsins.
Rauða ljónið Bjarni Felixson var lengi einn af hornsteinum Ríkisútvarpsins. — Morgunblaðið/Ómar
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Beinar sjónvarpsútsendingar þykja sjálfsagðar, en þær voru fátíðar fyrstu áratugi íslensks sjónvarps og þekktust ekki frá útlöndum á Íslandi fyrr en Bjarni Felixson, þáverandi íþróttafréttamaður ríkisútvarpsins, lýsti úrslitaleik Liverpool og Tottenham í ensku deildabikarkeppninni fyrir 40 árum. „Útsendingin var algjört nýmæli og margir innan sjónvarpsins gerðu sér ekki grein fyrir því hvað var að gerast, að Ísland væri að komast í samband við útlönd, en þetta voru kaflaskipti í sögunni, algjör tímamót.“

Liverpool vann Tottenham 3:1 í framlengdum úrslitaleiknum á Wembley í Lundúnum laugardaginn 13. mars 1982. Framlengingin var reyndar ekki á dagskrá sjónvarpsins fyrr en helgina á eftir vegna þess að ríkisútvarpið gat aðeins tryggt sér gervihnattasendingu meðan á venjulegum leiktíma stóð. „Því urðu Íslendingar að bíta í það gallsúra epli að glápa á skíðastökk meðan Liverpool bætti tveimur mörkum við,“ sagði Morgunblaðið í umsögn um leikinn.

Skert útsending átti sér samt eðlilegar skýringar. Bjarni bendir á að landið hafi í raun verið sambandslaust við umheiminn hvað sjónvarpsútsendingar varðar. Aðeins hafi verið um einn gervihnött að ræða, Intelsat, yfir Atlantshafinu og hann hafi aðallega verið gerður fyrir símtöl. „Þess vegna var erfitt að fá ótakmarkaðan tíma fyrir sjónvarpsútsendingar en það tókst að knýja út tíma fyrir venjulegan knattspyrnuleik.“

Kostnaðurinn vafðist fyrir ráðamönnum ríkisútvarpsins en Bjarni segir að málið hafi fengist samþykkt fyrir tilstuðlan sjónvarpsstöðva á Norðurlöndum, sem hafi hlaupið undir bagga og tekið þátt í samningum um útsendinguna. „Þær þurftu ekkert á því að halda en mér tókst að plata þær með á vagninn. Ég var í góðu sambandi við kollega á Norðurlöndum og við störfuðum svo mikið saman að innan sjónvarpsréttarhafa vorum við kallaðir „norræna mafían“. Þarna var norræn samvinna eins og hún gerist best og þótt sumir hafi talað um óþarfa bruðl minnir mig að hagnaður hafi verið af útsendingunni.“

Farandprestur fór á flakk

Dagskrá sjónvarpsins var niðurnjörvuð á þessum árum og Bjarni segir að henni hafi helst ekki mátt breyta. Menn hafi haldið fast utan um sitt. „Þeir voru ekki tilbúnir að láta efni víkja fyrir beinni íþróttaútsendingu,“ rifjar hann upp. Hugvekjan hafi til dæmis verið fastur liður á sunnudögum alla tíð, en séra Emil Björnsson fréttastjóri hafi eitt sinn gefið eftir. „Hugvekjan var helgur og óbifanlegur þáttur, hjartans mál. Ég var samt ekki sáttur, þegar fellt var að vera með beina útsendingu frá kappleik í staðinn og sagði við séra Emil að presturinn væri farandprestur þjóðkirkjunnar og mætti því fara á flakk. Það þótti séra Emil fyndið og lét undan.“

Undirbúningurinn hjá Bjarna fyrir fyrsti beinu útsendinguna var eins og fyrir aðrar útsendingar en öðru máli gegndi um tæknilegu hliðina. „Mesti undirbúningurinn var hjá tækniliðinu og Símanum, sem sá um móttökuna. Þar var mesta spennan en ég var vissulega spenntur. Eftir á var sagt að það hafi allt verið mér að kenna að farið var út í þessa vitleysu!“

Sumarið 1982 fór heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu fram á Spáni. Þá voru engar útsendingar í sjónvarpinu í júlí en Bjarni fékk því framgengt að úrslitaleikurinn var sýndur í beinni útsendingu. „Útvarpsráð hafnaði því alfarið að halda áfram útsendingum eftir 1. júlí en féllst síðan á að leyfa útsendinguna að því gefnu að ég gæti kallað menn úr sumarfríi í vinnu. Það voru mörg ljón í veginum en þetta tókst,“ segir Rauða ljónið, eins og Bjarni er oft kallaður. „Við sendum úrslitaleikinn út í svart-hvítu, því við gátum ekki komist inn á breska kerfið heldur urðum að nota hnött sem var á segam-kerfinu, sem Frakkar notuðu, og var notaður fyrir sendingar til Suður-Ameríku.“

Bjarni var ráðinn til ríkisútvarpsins til þess að sjá um ensku knattspyrnuna í hlutastarfi 1968, fór síðar í fullt starf og hætti formlega skömmu fyrir sjötugsaldurinn en hélt áfram sem verktaki í nokkur ár. „Ég ætlaði aldrei að verða ríkisstarfsmaður en svona fór það nú,“ segir Bjarni, sem er 85 ára og í fínu formi og þakkar það daglegri vatnsleikfimi. „En fyrsta beina útsendingim er einn af hápunktum starfsins enda stór stund í sögunni.“