[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þessi ræktun er nú aðallega bensín á þrjóskuna en ég lít þó svo á að við séum að nálgast þetta,“ segir Þórður Freyr Sigurðsson, viðskiptafræðingur og býflugnabóndi á Uppsölum 2 í Fljótshlíð.

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þessi ræktun er nú aðallega bensín á þrjóskuna en ég lít þó svo á að við séum að nálgast þetta,“ segir Þórður Freyr Sigurðsson, viðskiptafræðingur og býflugnabóndi á Uppsölum 2 í Fljótshlíð. Þórður og kona hans, Margrét Jóna Ísólfsdóttir, hafa síðustu ár prófað sig áfram við sinnepsrækt í félagi við Björgvin Þór Harðarson kornbónda frá Laxárdal.

Þórður og Margrét hófu smábúskap með býflugur árið 2013 og fóru í kjölfarið að velta fyrir sér heppilegum plöntum til að rækta fyrir þær. Þau komust fljótt að því að sinnep væri planta sem blómstraði vel og mikið og gæfi mikinn blómasafa. Eftir nokkrar tilraunir ákváðu þau að leita til atvinnumanns í kornrækt til að sjá um ræktunina. Rækta þau nú í félagi við Björgvin á ökrum í Gunnarsholti. Þórður telur þau smám saman nálgast markmið sitt að fá fullan þroska í sinnepsfræið og nota það til að framleiða hunangssinnep þegar afurðum býflugnanna hefur verið bætt við.

Fá vonandi nýtanlega uppskeru

„Við gerðum aftur tilraun í ár. Að þessu sinni prófuðum við tvö yrki í tveimur ökrum. Þetta eru reyndar sömu yrki og á síðasta ári en nú skiptum við um staðsetningu, prófum annan jarðveg og njótum meira skjóls,“ segir Þórður.

Enn hefur þeim ekki tekist að ná fullum þroska í uppskeruna í heild sinni. Hann segir þó að ákveðnar plöntur hafi náð að fullþroska fræin en það hefur ekki verið í því magni og hlutfalli að það hafi verið nýtanlegt. „Það vantar enn eitthvað upp á. Hvort það er bara betra sumar eða margir samverkandi þættir eins og jarðvegur, áburðargjöf, skjól og gott sumar er ekki gott að segja. Ég vil alla vega trúa að við séum á réttri leið. Ef við sæjum ekki einhvern árangur myndi ég hætta þessu. Það sem heldur manni gangandi er að þetta er planta skyld repju og næpu og það hefur gengið þokkalega að rækta þær hér.“

Þórður segir að einhverjar líkur séu á því að þau fái nýtanlega uppskeru í ár en það kemur í ljós í október. „Sumarið í heild var ekki mjög gott, seinni hlutinn var frekar kaldur og þá held ég að hægt hafi verulega á þroskanum. En miðað við hversu haustið er milt og gott ennþá má búast við að þroskinn haldi áfram. Ég er passlega bjartsýnn.“

Sinnepsskortur í heiminum

Fréttir bárust af því fyrir nokkrum vikum að skortur væri á dijon-sinnepi í heiminum. Uppskerubrestur varð vegna þurrka í Kanada og stríðið í Úkraínu hefur sömuleiðis sett strik í reikninginn. Þórður telur að einhver bið verði á því að sinnepsræktin hér á landi tryggi okkur nægar birgðir þegar hart er í ári. „Mikið vildi ég að ég gæti orðið að liði í því! En þessar fréttir af sinnepsskorti fá okkur að minnsta kosti til að hugsa um það að verða sjálfbær.“

Fer vel saman við býflugnaræktina

Engan bilbug er á sinnepsbændunum að finna enda fer ræktunin vel saman við býflugnaræktina. „Hvatinn er frá býflugunum og þessi draumur að ná að púsla þessu tvennu saman. Við höfum verið með býflugurnar við akurinn og þær hafa sótt í blómin og líka aðstoðað við frjóvgun á plöntunum. Þá næst meiri uppskera á ökrunum, bæði í sinnepinu, repjunni og nepjunni. Við látum okkur enn dreyma um að geta fengið fullþroskaðar plöntur og búið til sinnep. Því yrði svo blandað við hunangið og úr yrði hunangssinnep, „honey dijon“. Það er leikurinn í þessu.“

Dijon-sinnep oft ófáanlegt

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í ágúst hefur verið skortur á sinnepi í ár en hann má að mestu rekja til mikilla þurrka í Kanada hvar framleidd eru um 80% af öllum sinnepsfræjum í heiminum. Stríðið í Úkraínu spilar enn fremur inn í skortinn því þar er framleitt talsvert af hvítum sinnepsfræjum, sem notuð eru í gult sinnep og breskt sinnep. Eftir að hvítu fræin urðu ófáanleg sóttu margir framleiðendur í þau brúnu sem Kanadamenn framleiða. Verðið þrefaldaðist og því hafa framleiðendur dregið saman seglin. Fyrir vikið hefur dijon-sinnep stundum verið ófáanlegt hér á landi að undanförnu.