Lykilmaður Rodrigo Gómez eltir Ísak Snæ Þorvaldsson í leik KA og Breiðabliks. Rodrigo skoraði fyrra mark KA og átti stóran þátt í því síðara.
Lykilmaður Rodrigo Gómez eltir Ísak Snæ Þorvaldsson í leik KA og Breiðabliks. Rodrigo skoraði fyrra mark KA og átti stóran þátt í því síðara. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besta deildin Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Baráttan um meistaratitilinn er alls ekki útkljáð. Valur er að stimpla sig út úr slagnum um Evrópusæti með tapi gegn tíu Leiknismönnum. KR er öruggt með sæti í efri hlutanum.

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Baráttan um meistaratitilinn er alls ekki útkljáð. Valur er að stimpla sig út úr slagnum um Evrópusæti með tapi gegn tíu Leiknismönnum. KR er öruggt með sæti í efri hlutanum. Harður slagur verður um sjötta sætið í 22. umferðinni á laugardaginn kemur og FH vann afgerandi sigur á ÍA í fallbaráttunni.

Þetta eru helstu niðurstöðurnar eftir 21. umferð Bestu deildar karla í fótbolta sem öll var leikin á sama tíma í gær.

Hallgrímur Mar Steingrímsson tryggði KA sigur á Blikum, 2:1, með marki úr vítaspyrnu rétt fyrir leikslok á meðan Víkingar unnu öruggan sigur í Keflavík, 3:0. Þar með er forysta Blika dottin niður í sex stig þegar enn eru sex umferðir eftir og þrjú efstu liðin eiga öll eftir að mætast á ný á lokasprettinum.

*Mark Hallgríms var líka sögulegt því það var 500. mark KA í efstu deild.

* Rodrigo Gómez skoraði fyrra mark KA og átti stóran þátt í því seinna í 100. leik sínum í efstu deild.

Víkingar hafa nú skorað 12 mörk gegn engu á nokkrum dögum og hafa sett félagsmet með því að skora 56 mörk í deildinni á tímabilinu, átján mörkum meira en þegar þeir urðu meistarar í fyrra. Markaveisla þeirra síðustu daga er nánast eins og aukastig því nú munar litlu á markatölu þeirra og Blikanna fyrir lokasprettinn.

Stefán Árni Geirsson skoraði tvö marka KR sem vann Stjörnuna 3:1 og verður í efri hlutanum í síðustu fimm umferðunum.

Guðmundur Magnússon skoraði bæði mörk Framara í 2:2-jafntefli í Eyjum, það seinna með glæsilegu skoti af hátt í 30 metra færi.

Stjarnan, Fram og Keflavík bítast um sjötta sætið í 22. umferðinni. Fram og Keflavík mætast og sigurliðið gæti fellt Stjörnuna úr sjötta sætinu, tapi Garðbæingar fyrir FH.

Ótrúleg endurkoma Leiknis

Leiknismenn áttu ótrúlega endurkomu eftir níu marka tapið gegn Víkingi. Þeir misstu Zean Dalügge af velli með rautt spjald eftir 19 mínútur en unnu samt Val 1:0 með marki Birgis Baldvinssonar skömmu fyrir leikslok. Leiknir komst uppfyrir ÍA og af botninum en liðin mætast á Akranesi á laugardaginn og mætast síðan aftur í fallkeppninni í október.

Eftir þessi úrslit þurfa Valsmenn mikla sigurgöngu í síðustu umferðunum til að eygja von um Evrópusæti.

Lennon loks með 100. markið

Upprisa FH hélt áfram og í fjórða deildarleiknum í röð án taps gjörsigruðu Hafnfirðingarnir Skagamenn, 6:1, í lykilleik fallbaráttunnar þar sem Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði tvö mörk.

* Steven Lennon skoraði langþráð 100. mark sitt í efstu deild í stórsigri FH. Hann hafði ekki skorað í átta síðustu leikjum í deildinni en kom inn á sem varamaður, skoraði fimmta mark FH og lagði upp það sjötta. Lennon er fimmti leikmaðurinn í sögunni sem skorar 100 mörk í deildinni.

* Matthías Vilhjálmsson fyrirliði FH skoraði sitt 50. mark í deildinni þegar hann kom liðinu yfir gegn ÍA úr vítaspyrnu.