Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Kurr er meðal fólks á Norðurlandi – og víðar á landinu – vegna þjónustu Icelandair í innanlandsflugi. Algengt hefur verið að undanförnu að ferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar séu felldar niður fyrirvaralítið. Slíkt hefur komið sér illa fyrir fólk sem þarf milli staða, til dæmis í lækniserindum eða vegna vinnu sinnar, eins og margir hafa lýst til dæmis á samfélagsmiðlum. Bæjarfulltrúar láta þetta nú til sín taka og óska eftir skýringum flugfélagsins. Fundur með Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair er áformaður í næstu viku.
Verður að komast í lag
„Ástandið er algjörlega óboðlegt og málin verða að komast í lag,“ segir Heimir Árnason, forseti bæjarstjórnar Akureyrar. „Við vitum um fólk sem er jafnvel komið suður á flugvöll þegar það fær þau svör að flugi hafi verið frestað ellegar þá sms um að ferð hafi verið felld niður. Gagnvart þessu er fólk algjörlega ráðalaust, til dæmis ef sækja þarf mikilvæga þjónustu fyrir sunnan. Sumir aka því á milli ellegar láta breyta farmiðanum sínum en fyrir slíkt tekur flugfélagið tugi þúsunda króna.“
Heimir Örn leggur áherslu á að innanlandsflugið sé að nokkru þjóðvegur milli Reykjavíkur og Akureyrar. Því þurfi þessi þjónusta að vera í lagi, rétt eins og vegum sé haldið greiðfærum. „Ég treysti Icelandair til þess að meta hvað þörf er á mörgum ferðum hér á milli á dag. Við viljum bara að áætlanir standist, en hvers vegna slíkt gerist ekki verður forstjórinn að svara.“
Fram kom á vefnum akureyri.net nýlega að á fyrstu sex mánuðum líðandi árs hefðu á flugleiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar 965 ferðir verið á réttum tíma, 410 með seinkun upp á 15 mínútur eða meira og 143 ferðir felldar niður. Árið 2019 var hins vegar 1.481 ferð á tíma, 119 með seinkum og aðeins 75 ferðir féllu niður.
Bilaðar flugvélar og löng bið eftir varahlutum
„Við höfum fullan skilning á þeim óánægjuröddum sem heyrst hafa. Því ástandi sem verið hefur viljum við bæta úr,“ segir Ari Fossdal, stöðvarstjóri Icelandair á Akureyri. Hann bendir á að vélarnar sem nýttar eru í innanlandsfluginu hafi á síðustu mánuðum nokkrar farið í tímafrekar ástandsskoðanir. Einnig hafi komið upp minniháttar bilanir í vélum, sem þá hafa verið kyrrsettar í varúðarskyni. Nokkurra daga bið geti verið eftir varahlutum, sem fyrir tíma heimsfaraldurs hafi á stundum mátt útvega samdægurs að utan. Ekki sé svigrúm til að taka aðrar vélar inn til notkunar vegna þeirra sem eru stopp. Vegna þess hafi því á stundum farið af stað víxlverkandi vandamál sem geti tekið tíma að leysa.
„Í vor lentum við í svona hrakningum en vorum á góðri áætlun í sumar. Vonandi tekst okkur fljótlega að komast aftur á sporið því ástandið er slæmt fyrir alla,“ segir Ari Fossdal.