Eftirsótt Byggingarlóðin er við Hlíðarenda og Hótel Loftleiðir.
Eftirsótt Byggingarlóðin er við Hlíðarenda og Hótel Loftleiðir. — Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson/RVK
Bestla þróunarfélag ehf. hefur keypt byggingarréttinn á lóðinni Nauthólsvegi 79 af Reykjavíkurborg. Verð lóðarinnar var 715,7 milljónir króna og bundið byggingarvísitölu í nóvember sl. Jafnframt greiðir Bestla um 102,5 milljónir í gatnagerðargjöld

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Bestla þróunarfélag ehf. hefur keypt byggingarréttinn á lóðinni Nauthólsvegi 79 af Reykjavíkurborg.

Verð lóðarinnar var 715,7 milljónir króna og bundið byggingarvísitölu í nóvember sl. Jafnframt greiðir Bestla um 102,5 milljónir í gatnagerðargjöld.

Guðjón Helgi Guðmundsson, byggingarstjóri Bestlu byggingarfélags, segir áformað að hefja jarðvinnu í haust.

Guðjón Helgi og Jón Ágúst Garðarsson eru eigendur félagsins.

Nokkur tilboð bárúst

Forsaga málsins er að 29. júní síðastliðinn voru bókuð inn tilboð vegna auglýsingar um sölu byggingarréttar á lóðinni Nauthólsvegi 79. Félagið Skientia ehf. var hæstbjóðandi en félagið bauð 751 milljón króna í lóðina. Næsthæsta boð kom frá ÞG Asparskógum ehf. eða 665 milljónir. REIR verk varð svo í þriðja sæti en það bauð 419 milljónir.

Fékk kaupréttinn

Byggingafélagið MótX keypti svo Skientia í byrjun október og fékk þar með kaupréttinn. MótX áformaði að byggja 65 íbúðir á Nauthólsvegi 79. Viðskiptin gengu hins vegar ekki eftir og lýsti Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verk yfir óánægju með að borgin skyldi ekki ræða við ÞG Asparskóga. Ívar Örn Ívarsson, deildarstjóri lögfræðideildar á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, sagði borgina hins vegar óbundna af tilboðinu.

Borgarráð samþykkti svo í desember að afturkalla lóðarúthlutunina og að byggingarréttur á lóðinni skyldi seldur á föstu verði, 715,7 milljónir króna, og hefur sala á því verði, auk gatnagerðargjalda, nú gengið eftir.

Höf.: Baldur Arnarson