Ekkert skólastarf verður í Grindavík næsta skólaár. Safnskólar fyrir leik- og grunnskólabörn verða lagðir af og öll börn skulu sækja skóla sem næst heimili sínu, samkvæmt ákvörðun bæjaryfirvalda. Foreldrar og forráðamenn þurfa að sækja um skólavist. Í tilkynningu kemur fram að unnið sé að því að tryggja leikskólavist barna frá Grindavík með samkomulagi við sveitarfélög.
Bærinn muni uppfylla fræðsluskyldu sína með samningum við önnur sveitarfélög og greiða fyrir þjónustu þeirra við leik- og grunnskólabörn. Unnið sé að því að foreldrar og forráðamenn hafi sveigjanleika við val á leik- og grunnskóla fyrir börn sín með tilliti til aðstæðna hverju sinni, félagslegra tengsla, námsþarfa og svo framvegis. Haft er eftir Ásrúnu Helgu Kristinsdóttur forseta bæjarstjórnar að mikilvægt sé að eyða óvissu svo að Grindvíkingar geti tekið viðeigandi ákvarðanir fyrir sig og sína.