Elínrós Líndal Ragnarsdóttir
elinroslr@gmail.com
Tækni DTE er byggð á skynjurum sem greina efnasamsetningu fljótandi málma með laser-litrófsgreiningu. Ofan á þennan efnagreiningarbúnað er hugbúnaður sem aðstoðar áliðnaðinn að taka gagnadrifnar ákvarðanir.
Í einföldu máli virkar vélbúnaðurinn þannig að skotið er með laser á málminn þannig að hann litgreinist. Litirnir í málminum segja okkur hvaða efni eru í honum. Við tökum þær upplýsingar og fleiri upplýsingar og setjum í samhengi fyrir viðskiptavininn svo hann geti tekið betri ákvarðanir um hvernig er best að vinna álið og gæðastýra framleiðslunni. Stundum þarf að bæta í blöndun og athuga hvort álið sé innan tilskilinna marka,“ segir Karl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri íslenska hátæknifyrirtækisins DTE, og heldur áfram að útskýra:
„Núverandi kerfi hjá mörgum fyrirtækjum er þannig að handvirk sýni úr áli eru tekin daglega og jafnvel nokkrum sinnum á dag. Sýnin eru steypt í mót og síðan efnagreind inni á rannsóknarstofu.“
DTE þjónustar Norðurál á Grundartanga og álver RioTinto á Íslandi. Einnig EGA sem er fjórða stærsta álver í heimi, staðsett í Mið-Austurlöndum, og Novelis sem er stærsti endurvinnsluaðili á áli í heiminum og er í Bandaríkjunum. Fyrirtækið selur einnig lausnir sínar víða um Evrópu.
„Áliðnaðurinn hér heima og erlendis er að vinna í því að innleiða lausnir eins og okkar, enda er mikil áhersla lögð á sjálfvirknivæðingu og gagnadrifna ákvörðunartöku. Við erum í miðri fjórðu iðnbyltingu þar sem stafræn umbylting er í forgrunni.“
Eru að ráða í sjö nýjar stöður
DTE er rúmlega tíu ára gamalt fyrirtæki sem á upphaf sitt að rekja til rannsóknarverkefnis. Karl var áður hjá Verkís verkfræðistofu og vann þar við að þjónusta álfyrirtækin. DTE hlaut styrki frá Tækniþróunarsjóði og úr Evrópusjóðum. Fyrirtækið hefur laðað til sín starfsmenn frá Íslandi en einnig erlenda sérfræðinga enda hefur vöxturinn verið hraður og sérhæfing mikil.
Hvaða væntingar eruð þið með til sýningar á borð við Verk og vit?
„Við erum aðallega að kynna almenningi fyrirtækið þar sem við erum að leita að framtíðarstarfsfólki í teymið okkar. Við vorum að auglýsa eftir sjö nýjum starfsmönnum. Hlutfall kvenna er 36% sem er meira en gengur og gerist í okkar grein. Ég er stoltur af því,“ segir Karl.
Spurður um menntun starfsfólks nefnir hann sérfræðinga í hugbúnaði og forritun, málmfræði og ljósatækni, verkfræðinga með sérhæfingu á ýmsum sviðum, rafvirkja, lögfræðinga og fjármálasérfræðinga.
„Það er spennandi að sjá ólíka fagaðila vinna saman. Tæknifólkið okkar starfar samkvæmt „agile“-hugmyndafræðinni á meðan rafvirkjar eru í allt öðrum takti. Það er gaman að sjá þessi ólíku störf vinna að sameiginlegu markmiði um að stækka og að halda áfram rannsóknum.“
Endurvinnslufyrirtækin að sýna DTE áhuga
Á þessu ári stefnir Karl á stórsókn inn á Norður-Ameríkumarkað og að auka hlutdeild fyrirtækisins í Mið-Austurlöndum.
„Ál er meðal þeirra málma sem mest eru endurunnir. Yfir 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum eru enn í notkun. Endurvinnslufyrirtæki eru að sýna lausnum okkar mikinn áhuga. Þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í endurvinnslu á áli eru í miklum vexti. Þessi „græni málmur“ skapar grænan iðnað með margfalt minna kolefnisspor en fyrirtæki sem framleiða nýtt ál. Það er algjörlega á okkar línu að skapa tækifæri á þessu sviði.“