Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Verði frumvarp félagsmálaráðherra um breytingar á lögum um örorkulífeyriskerfi almannatrygginga samþykkt er mikilvægt að fjárhagslegur ávinningur af nýju kerfi verði nýttur til að bæta og styrkja kjör fatlaðs fólks. Þetta segir í umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka (áður Öryrkjabandalag Íslands) um frumvarpið sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Kostnaðarauki ríkisins af áformuðum lagabreytingum er áætlaður 19 ma. kr., upphæð sem ætlað er að ná til baka með aukinni áherslu á endurhæfingu svo fólk sem nýtur stuðnings komist sem fyrst aftur til atvinnuþátttöku. ÖBÍ varar þó við í umsögn sinni að markmið um sparnað komi niður á réttindum fatlaðs fólks.
„Alþingi ber ábyrgð á lífskjörum þúsunda sem eiga allt sitt undir því að breytingar sem kunna að verða gerðar tryggi mannsæmandi framfærslu og tækifæri til þátttöku í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ í samali við Morgunblaðið.
Almannatryggingar og lífeyrissjóðir vinni betur saman
Í grundvallaratriðum er ÖBÍ hlynnt þeim kerfisbreytingunum sem frumvarpið mælir fyrir um. Margt er þó, að mati Ölmu, óljóst og óskýrt. Breytinga á fumvarpinu sé þörf áður en það verði að lögum. Í umsögninni eru tiltekin 13 áhersluatriði sem ÖBÍ telur nauðsynlegt að breytingar verði gerðar á.
Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp samþætt sérfræðimat í stað örorkumats. Slíkt verði forsenda greiðslna örorkulífeyris. Vinna við útfærslu á matsviðmiðum stendur enn yfir og þau vill ÖBÍ sjá áður en frumvarpið verði samþykkt. Einnig benda samtökin á að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar og aðgerðir um mikla aukningu á atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Einnig er gerð athugasemd við að virknistyrkur til skjólstæðinga Tryggingastofnunar falli niður með atvinnutekjum, óháð upphæð þeirra.
Mikilvægt sé sömuleiðis að gera úrbætur svo kerfi almannatrygginga og lífeyrissjóða vinni betur saman. Nauðsynlegt sé ennfremur að greiðsla á árlegri eingreiðslu almannatrygginga sem komið hefur rétt fyrir jól haldist áfram skattlaus í nýju kerfi; að öðrum kosti munu ráðstöfunartekjur margra örorkulífeyristaka skerðast. Þá er einnig minnt á að sú fjárhæð sem skv. frumvarpinu er áætluð til framfærslu, 380 þús. kr. eða um 325 þús. kr. eftir skatt, sé alltof lág.
Það að veikjast, fatlast eða fæðast fatlaður er ekki skömm þess sem fyrir því verður. Örorka eða endurhæfing er hvorki valkvæð né eftirsóknarverð, segir í umsögn ÖBÍ. Vakin er athygli á nýlegum úttektum sem leitt hafi í ljós að fólk sem reiðir sig á greiðslur almannatrygginga búi sumt við sárafátækt, enda með greiðslur undir lágmarkslaunum. Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins sé þó að bæta afkomu þessa hóps og auka við stuðning. Slíkt þurfi þá að sýna í verki svo fólk sem tekur örorkubætur hafi lífskjör til að njóta sífellt batnandi lífsskilyrða.
Alþingi sýni virðingu
„ÖBÍ hefur kallað eftir breytingum á örorku- og almannatryggingakerfinu í áratugi og rekið fjölmörg dómsmál einstaklinga sem hafa þurft að reiða sig á það. Nú er tækifærið fyrir Alþingi að bregðast við og mæta þeim sem reiða sig á kerfið af virðingu. Sýna í raun að nú eigi að gera betur. Það er hreinlega ekki hægt að bíða lengur með slíkt,“ segir Alma Ýr
Ingólfsdóttir.